152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

stjórn veiða á grásleppu.

[15:36]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt sem kemur fram í máli þingmannsins að stjórn veiða á grásleppu er ómarkviss eins og staðan er núna og við höfum rætt þetta áður hér í þingsal. En raunar eru veiðar á grásleppu ekki stærsta áskorunin í þessu efni heldur meðafli. Það veiðist mikið af þorski með grásleppu á tilteknum svæðum og tímabilum, en einnig mikið af fugli og sel. Grundvallarvandi liggur í því að greinin er klofin í afstöðu til hlutdeildarsetningar. Tiltekinn hluti talar með hlutdeild og rekur þar mikilvægi fyrirsjáanleika, minnkaðs brottkasts o.s.frv., hagkvæmni og samþjöppun, eins og við þekkjum. En svo er jafnframt hópur sem talar gegn hlutdeild og talar um lágar aðgangskröfur, þ.e. að leyfið sé ódýrt miðað við aflamark sem tengist væntingum um afkomu. Um grásleppuveiðar ríkja ákveðnar hefðir og með hlutdeildarsetningu fylgir þá ótti við samþjöppun. Það er partur af þeirri umræðu. Þegar ég kem að sjávarútvegsráðuneytinu eða ráðuneyti matvæla þá liggur sannarlega fyrir það frumvarp sem hv. þingmaður vísar til. En ég taldi ástæðu til að taka þátt grásleppunnar út úr frumvarpinu í ljósi þess að ekki vannst nægur tími til að freista þess að ná betra jafnvægi í umræðuna. Það er hins vegar algerlega á hreinu að það verður að finna viðhlítandi lausn á þessari stöðu fyrir næsta þing og að því er unnið. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu vegna þess að við eigum ekki að láta hjá líða að freista þess að leysa þau mál með einhverju móti. En það einfaldar ekki málið að greinin er mjög klofin í málinu.