152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

heildarúttekt heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma.

304. mál
[15:54]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jódís Skúladóttir hefur beint til mín spurningum um þennan mikilvæga málaflokk, um heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma. Varðandi fyrstu spurninguna vil ég segja: Það er kominn tími til að fara í heildarúttekt á heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma. Verkefnið var sett af stað 11. maí 2021 og er tímabært, eins og ég segi. En megintilgangur þessarar heildarúttektar er að rýna núverandi þjónustuferla í fyrsta, annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu og undirliggjandi hugmyndafræði sem og innihald, árangur og gæði þjónustu fyrir fólk með vímuefnasjúkdóma. Þarna liggur í raun og veru grunnurinn að öllu öðru sem eftir fylgdi, um það hvernig við sinnum þessari heilbrigðisþjónustu í landinu. Gagnasöfnun þessarar úttektar er mjög umfangsmikil og framkvæmd og úrvinnsla hefur tafist, að miklu leyti vegna álags tengt heimsfaraldri og vegna annarra aðkallandi verkefna ráðuneytisins. Áætlað er að úrvinnslu og skýrsluskrifum muni ljúka í sumar. Ég tek heils hugar undir mikilvægi þessa verkefnis með hv. þingmanni.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður hvort ráðherra telji að framboð meðferðarúrræða sé nægilega fjölbreytt. Ég held að þessi heildarúttekt hjálpi okkur við að svara þessu miklu betur og ég ítreka að hún er tímabær. Aðgengi og neyslumynstur hvað varðar fíkniefni tekur örum breytingum eins og við þekkjum og meðferðarúrræði þurfa að taka mið af slíkum breytingum. Það er nauðsynlegt að þróa og endurskoða meðferðir og þjónustu. Á Íslandi er þjónusta fyrir einstaklinga með vímuefnasjúkdóma veitt á heilbrigðisstofnunum, eins og á heilsugæslunni, Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri og svo eru það frjáls félagasamtök. Eins og í annarri þjónustu hefur lengi verið nokkurs konar hefð fyrir því að frjáls félagasamtök fari oft fyrr af stað. Við vorum að ræða geðsjúkdóma hér áðan og þjónustu á því sviði og þar eru frjáls félagasamtök á borð við SÁÁ og Samhjálp og á vegum Rauða kross Íslands eru starfrækt verkefni, á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjanesbæ og á Akureyri, þar sem einstaklingar sem nota vímuefni geta nálgast það sem við köllum skaðaminnkandi þjónustu. Blessunarlega finnst mér vera mikil framför á því sviði. Við erum, í tengslum við mál sem ég afturkallaði ekki fyrir löngu, að taka svolítið utan um skaðaminnkandi úrræði, það sem við erum að gera á því sviði, og ég mun styðja við þá vinnu.

Framboð á ýmiss konar meðferðarúrræðum er til staðar á Íslandi en vísbendingar eru um að þörf sé á heildstæðri og samþættri heilbrigðisþjónustu á öllum stigum. Þetta hefur því miður verið of brotakennt. Það er svo sannarlega þörf á heildstæðri og samþættri heilbrigðisþjónustu. Þess vegna er þessi úttekt ekki bara bráðnauðsynleg heldur algerlega tímabær.

Í júní 2020 gaf embætti landlæknis út fyrstu skýrsluna þar sem m.a. er bent á að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út viðmið um meðferð vegna vímuefnaneyslu. Þar segir m.a. að meðferð þurfi að fela í sér þjónustu sem er í boði úti í samfélaginu og nái til jaðarsettra hópa, skimun, stutt inngrip, göngudeildar-, dagdeildar- og innlagnarþjónustu, læknisfræðileg og sálfélagsleg úrræði, langtímabúsetuúrræði, endurhæfingu og stuðningsmaður fer fyrir einstakling í bataferli. Enn og aftur, af því að við vorum að ræða geðheilbrigðismál í óundirbúnum fyrirspurnatíma, þarf á sama tíma að ná utan um þessa skörun. Ég verð að fá að halda áfram hér á eftir.