152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

starfskjaralög.

589. mál
[17:31]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til starfskjara laga en með frumvarpinu er gert ráð fyrir að sett verði ný heildarlög um starfskjör launafólks í stað laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980. Frumvarpið er byggt á vinnu starfshóps sem skipaður var af þáverandi félags- og barnamálaráðherra, en megintilgangur frumvarpsins er að koma til framkvæmda þeim aðgerðum stjórnvalda í tengslum við lífskjarasamninga á almennum vinnumarkaði vorið 2019 sem falla undir málefnasvið félags- og vinnumarkaðsráðherra og lúta að vinnumarkaðnum. Það er jafnframt megintilgangur frumvarpsins að skýra leikreglur á vinnumarkaði, m.a. í því skyni að sporna gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi og er frumvarpinu þannig ætlað að bregðast við auknum vanda hvað það varðar á innlendum vinnumarkaði.

Vinnumarkaður hér á landi er vel skipulagður með öflugum samtökum launafólks og atvinnurekenda sem semja sín á milli í kjarasamningum um laun og önnur starfskjör starfsmanna sem eru þátttakendur á innlendum vinnumarkaði, sem og um aðra þætti er varða hagsmuni launafólks og atvinnurekenda. Árið 1980 tóku gildi hér á landi lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda þar sem m.a. er kveðið á um að laun og önnur starfskjör sem samtök aðila vinnumarkaðar semja um skuli vera lágmarkskjör á íslenskum vinnumarkaði. Í lögunum er einnig kveðið á um að samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveði skuli ógildir. Lögunum, sem enn eru í gildi, er þannig ætlað að tryggja að launafólk á innlendum vinnumarkaði njóti ekki lakari kjara en þeirra sem samið er um í almennum kjarasamningum. Þannig hafa verið settar reglur og mótuð framkvæmd í samskiptum aðila vinnumarkaðarins sem gefur stéttarfélögum og samtökum atvinnurekenda ríkt umboð til að koma fram fyrir hönd og gæta hagsmuna launafólks, fyrirtækja og stofnana, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða stofnanir á almennum eða opinberum vinnumarkaði.

Virðulegi forseti. Almennt hafa aðilar vinnumarkaðarins eftirlit með því að farið sé að ákvæðum kjarasamninga á innlendum vinnumarkaði. Er það jafnframt hlutverk stéttarfélaga að bregðast við kvörtunum launafólks telji þau brotið á kjarasamningsbundnum réttindum sínum í tengslum við þátttöku á vinnumarkaði. Í frumvarpi þessu er ekki er gert ráð fyrir breytingu hvað þetta varðar. Hér er hins vegar gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun verði falið afmarkað hlutverk í þessu sambandi en lagt er til að launamaður geti í tilteknum tilvikum óskað eftir aðstoð Vinnumálastofnunar við að fá launagreiðslur leiðréttar telji launamaðurinn að atvinnurekandi greiði honum lakari laun en honum ber samkvæmt kjarasamningi. Áður en launamaður getur óskað eftir aðstoð Vinnumálastofnunar við að fá launagreiðslur leiðréttar er gert ráð fyrir að hann sjálfur, standi hann utan stéttarfélags eða með milligöngu stéttarfélags, hafi krafist þess með sannanlegum hætti að hlutaðeigandi atvinnurekandi leiðrétti launagreiðslur. Þykir slík framkvæmd í samræmi við þá meginreglu að almennt leysi aðilar vinnumarkaðarins úr ágreiningi sem upp kemur í tengslum við túlkun kjarasamninga án aðkomu opinberra aðila.

Frumvarpið gerir þó ráð fyrir að greiði atvinnurekandi ekki laun í samræmi við kjarasamninga hafi Vinnumálastofnun heimild til að leggja á atvinnurekandann dagsektir og að stofnunum geti eftir atvikum látið stöðva starfsemi hans tímabundið þar til úrbætur hafa verið gerðar. Þá er lagt til að Vinnumálastofnun hafi jafnframt heimildir til að leggja á atvinnurekanda stjórnvaldssektir hafi hann ítrekað ekki farið að fyrirmælum stofnunarinnar um að greiða laun í samræmi við kjarasamninga sem og í þeim tilvikum þegar atvinnurekandi hefur veitt stofnuninni rangar eða ófullnægjandi upplýsingar í þágu Eftirlitsstofnunarinnar.

Þá er í frumvarpinu lagt til að atvinnurekandi skuli greiða launamanni févíti í tilteknum tilvikum. Með févíti er átt við sérstakar greiðslur til launamanns umfram vangreidd laun en ákvæði þessa efnis í frumvarpinu var samið í sérstöku samráði við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins. Að tveimur árum liðnum frá gildistöku laganna, verði frumvarpið samþykkt á Alþingi, er jafnframt gert ráð fyrir að ráðherra skuli í samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins meta hvort þörf sé á að endurskoða þær reglur sem lagt er til í frumvarpinu að gildi um framangreind févíti. Þá skal nefnt það nýmæli laganna er varðar upplýsingaskyldu atvinnurekanda, en samkvæmt frumvarpinu ber atvinnurekanda ávallt að hafa tiltæk gögn sem sýna fram á hvaða laun hann hefur greitt starfsmönnum á hverjum tíma, upplýsingar um vinnutíma starfsmanna og önnur gögn er varða kjör starfsmanna, þar með talið launaseðla og staðfestingu á að laun hvers starfsmanns hafi verið greidd í samræmi við launaseðil.

Virðulegi forseti. Til viðbótar við það sem ég hef áður nefnt hér í framsögu minni er lagt til að í frumvarpi þessu verði komið á laggirnar sérstakri samstarfsnefnd stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins sem hefur það hlutverk að koma með tillögu að stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda hvað varðar áherslur og aðgerðir gegn brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði. Er þannig gert ráð fyrir að nefndin skuli afhenda ráðherra tillögu sína innan árs frá alþingiskosningum hverju sinni, en slíkt þykir mikilvægt þannig að hver ríkisstjórn hafi tækifæri til að marka sér stefnu og grípa til nauðsynlegra aðgerða innan hvers kjörtímabils.

Í frumvarpi þessu er jafnframt lagt til að með sérstökum samningum verði komið á fót samstarfsvettvangi opinberra eftirlitsaðila gegn brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði en tilgangurinn er að efla samstarf þessara aðila og efla þar með opinbert eftirlit á vinnumarkaði.

Þá tel ég rétt að vekja sérstaklega athygli á því að gert er ráð fyrir að gildissvið fyrirhugaðra laga nái ekki til sjálfboðaliða, en mikilvægt þykir að gera skýran greinarmun á sjálfboðaliðum annars vegar og launafólki hins vegar. Á það ekki síst við þar sem það er andstætt kjarasamningum og meginreglum á vinnumarkaði að sjálfboðaliðar gangi í almenn störf launafólks í efnahagslegri starfsemi fyrirtækja eða stofnana. Um störf sem launafólk sinnir almennt gilda ákvæði kjarasamninga og verður launafólki því ekki skipt út fyrir sjálfboðaliða til að sinna þessum störfum. Er því í frumvarpinu gert ráð fyrir að hugtakið sjálfboðaliði verði skýrt þannig að um sé að ræða einstakling sem ekki gegnir almennum störfum launamanna sem eru hluti af efnahagslegri starfsemi fyrirtækja eða stofnana. Hefðbundin sjálfboðaliðastörf eiga sér hins vegar langa sögu hér á landi og eru mikilvæg þeim aðilum sem vinna í þágu almannaheilla að góðgerðar-, menningar- eða mannúðarmála. Sem dæmi má nefna störf sjálfboðaliða í verkefnum fyrir ýmis félagasamtök sem tengjast góðgerðar- eða mannúðarmálum, svo sem fyrir Rauða krossinn á Íslandi, Hitt húsið, Hjálpræðisherinn, skátahreyfinguna eða Alþjóðleg ungmennaskipti svo eitthvað sé nefnt. Er því í frumvarpinu gert ráð fyrir skýrum skilum á milli þess að um sé að ræða launafólk annars vegar, sem fellur undir gildissvið laganna verði frumvarpið að lögum, og sjálfboðaliða hins vegar, sem falla utan gildissviðsins.

Þá er í frumvarpinu kveðið með skýrum hætti á um skyldur atvinnurekenda sem skuldbinda sig til að taka starfsnema í starfsnám á vinnustað.

Loks er í frumvarpi þessu lagðar til tilteknar breytingar á öðrum lögum í því skyni að tryggja eins vel og unnt að þær aðgerðir stjórnvalda í tengslum við lífskjarasamninga á almennum vinnumarkaði vorið 2019, sem ég nefndi í upphafi máls míns, komist til framkvæmda en helstu breytingarnar sem um ræðir eru á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Virðulegur forseti. Líkt og áður kom fram í máli mínu er vinnumarkaðurinn hér á landi vel skipulagður með öflugum samtökum launafólks og atvinnurekenda sem semja sín á milli í kjarasamningum um laun og önnur starfskjör starfsmanna sem eru þátttakendur á innlendum vinnumarkaði, sem og um aðra þætti er varða hagsmuni launafólks og atvinnurekenda, auk þess að hafa eftirlit með að farið sé að ákvæðum kjarasamninga. Frumvarpinu er ekki ætlað að breyta þessu. Það hefur hins vegar þótt mikilvægt að stjórnvöld geti í tilteknum tilvikum gripið inn í þegar um er að ræða brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði, en talið er að snarpara eftirlit og varnaðaráhrif fyrirhugaðra laga geti haft jákvæð áhrif hvað þetta varðar til lengri tíma litið. Ég tel frumvarp þetta því mikilvægt innlegg í þá umgjörð sem nú þegar er til staðar á innlendum vinnumarkaði og til þess fallið að sporna gegn brotastarfsemi í tengslum við kjarasamningsbundinn rétt starfsfólks sem eru þátttakendur á vinnumarkaði og stuðla þannig að heilbrigðum og öflugum vinnumarkaði þar sem leikreglur eru virtar af öllum, ekki bara sumum.

Brot á kjarasamningsbundnum réttindum starfsfólks sem eru þátttakendur á vinnumarkaði eigum við sem samfélag aldrei að sætta okkur við. Við verðum að gera það sem við getum til að sporna gegn slíkum brotum og okkur ber hreinlega skylda til þess. Ég hygg að sum hefðu viljað ganga lengra meðan önnur hefðu viljað ganga styttra með þessu frumvarpi en ég tel okkur vera að stíga mikilvæg skref í rétta átt með lögfestingu frumvarpsins.

Að lokum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu.