152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

starfskjaralög.

589. mál
[17:40]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að rekja hér aðeins í stuttu máli að ég tel þessi lög fela í sér mikið inngrip hins opinbera í samningssamband starfsmanna og atvinnurekanda. Ég tel þarna vera atriði sem ganga einfaldlega of langt og vil ég fara yfir það. Þau eru helst tvö, þ.e. samráðsnefnd og svo atriði er varðar févíti. Samráðsnefnd er falið að úrskurða um févíti, þ.e. leysa úr lögfræðilegum ágreiningi. Engu að síður er ekki mælt fyrir um neinar reglur um málsmeðferð eða hæfi nefndarmanna. Má færa rök fyrir því að rétt sé að dómstólar sjái um að ákvarða og úrskurðar atvinnurekendum févíti.

Í 9. gr. er mælt fyrir um eftirlit Vinnumálastofnunar með því hvort atvinnurekendur greiði launamanni laun sem eru lakari en almennir kjarasamningar kveða á um. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpinu kemur fram að almennt hafa aðilar vinnumarkaðarins eftirlit með því að farið sé eftir ákvæðum kjarasamninga á innlendum vinnumarkaði og er það jafnframt hlutverk stéttarfélaga að bregðast við kvörtunum launamanna telji þeir brotið á kjarasamningsbundnum réttindum sínum á vinnumarkaði. Jafnframt segir að meginreglan sé sú að aðilar vinnumarkaðarins leysi úr ágreiningi sem kemur upp í tengslum við túlkun kjarasamninga án aðkomu opinberra aðila. Með þessu er því verið að færa hlutverk stéttarfélaga yfir á hið opinbera. Þetta eftirlit er nú þegar í höndum aðila vinnumarkaðarins og eru ætlaðar lagabreytingar því hvorki launamönnum né atvinnurekendum til hagsbóta. Eini munurinn er sá að eftirlitið fer úr höndum stéttarfélaga í hendur Vinnumálastofnunar sem mun fela í sér óþarfa fjölgun ríkisstarfsmanna með tilheyrandi kostnaði sem mun líklega hljóða upp á hátt í 200 millj. kr. á ári.

Nú langar mig að fara aðeins yfir í févíti. Svo virðist vera sem markmið ákvæðisins sé annars vegar að sporna gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði og hins vegar að bæta launamönnum ætlað tjón vegna samningsbrota atvinnurekanda. Það er vandséð hvaða tjón launamaður verður fyrir umfram launatap þegar atvinnurekandi greiðir honum of lág laun sem bæta þarf með álagningu févítis. Eina tjónið sem launamaður yrði alla jafna fyrir væru lægri útborguð laun en hann á rétt á.

Ég vil benda á að launamaður á fjárkröfu á hendur atvinnurekenda vegna vangoldinna launa auk dráttarvaxta og innheimtukostnaðar eftir atvikum. Með því er tjón launamanns þegar að fullu bætt. Valdi vanefndir atvinnurekanda einhverju frekara tjóni á launamaður rétt á skaðabótum á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar. Því er tæpast unnt að líta á févíti samkvæmt frumvarpinu sem einhvers konar bætur fyrir tjón heldur einungis refsingu fyrir vanefndir.

Þá vekur og athygli að í athugasemdum við 14. gr. kemur fram að ef ágreiningur er um réttmæti eða fjárhæð kröfu launamanns, svo sem vegna fjarvista frá vinnu, lögmæti uppsagnar eða riftun ráðningarsamnings þar sem reynir á túlkun reglna, vinnuréttarlöggjafar eða samninga, þá komi févíti ekki til skoðunar þar sem um sé að ræða kröfuréttarlegan ágreining. Virðist vera að ef um sé að ræða kröfuréttarlegan ágreining þá eigið févíti ekki við.

Það skýtur því skökku við að hafa ákvæði um févíti yfir höfuð í lögunum í ljósi þess að ágreiningur um vanefnd samnings er ávallt kröfuréttarlegur ágreiningur í eðli sínu. Hins vegar kemur einnig fram að séu mótbárur atvinnurekandans metnar haldlausar geti févíti átt við. Aftur á móti er ágreiningurinn engu að síður kröfuréttarlegs eðlis óháð því hvernig mótbárur atvinnurekanda eru metnar.

Í frumvarpinu er samráðsnefnd gefið það hlutverk að ákvarða hvort beita eigi atvinnurekanda févíti og heimilt að gera tillögu um fjárhæð þess. Í frumvarpinu er því haldið fram, samkvæmt 6. gr., að samráðsnefndin sé best til þess fallin að meta hvort forsendur séu fyrir greiðslu févítis, svo sem hvort um sé að ræða túlkunarágreining milli aðila eða gild sjónarmið af hálfu atvinnurekanda að greiða ekki kröfu launamanns um laun. Fyrir þessu áliti eru ekki færð nein sérstök rök en vandséð er að einhver samráðsnefnd, sem litlar sem engar reglur eru til um og þess vegna skipuð ólöglærðu fólki, sé betur til þess fallin að leysa úr lögfræðilegu álitaefni um greiðslu skaðabóta févítis en dómstólar.