152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

starfskjaralög.

589. mál
[17:49]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni fyrir fyrirspurnina. Það er rétt sem hann nefnir hér, þetta frumvarp er hluti af lífskjarasamningum sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu. Hv. þingmaður spyr sömuleiðis hvort gerðir hafi verið fyrirvarar í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Ég er hér að vísa til ákveðinnar umræðu sem þar átti sér stað. Ég get sagt að ég setti ákveðna fyrirvara varðandi það að við værum að færa ágreining, sem leystur hefur verið af aðilum vinnumarkaðarins, til hins opinbera, þ.e. að færa ágreining á almennum vinnumarkaði yfir til hins opinbera. Ég tel það gagnrýnivert, og að við ætlum að færa það til Vinnumálastofnunar. Ég tel að slíkan ágreining eigi aðilar að leysa sín á milli. Varðandi févíti, eins og ég rakti hér áðan þá virðist sem það tjón sem launamenn verða fyrir sé kröfuréttarlegs eðlis og eigi að sækja slíkt fyrir dómstólum.