152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

starfskjaralög.

589. mál
[17:50]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Annað sem ég hjó eftir í ræðu hv. þingmanns áðan var — ég man ekki nákvæmlega hvernig það var orðað en inntakið var að það sé vandséð fyrir hvaða tjóni launafólk verði þegar umsamin laun eru ekki greidd á réttum tíma o.s.frv. Nú er það þannig að það tekur launafólk oft marga mánuði, jafnvel ár að fá kröfu vegna vangoldinna launa innheimta fyrir dómstólum. Er það ekki algjörlega augljóst í huga okkar hér á Alþingi að það geti verið mjög íþyngjandi fyrir launafólk, segjum sérstaklega aðflutta Íslendinga, fólk sem kemur hingað til að vinna, að þurfa kannski að bíða vikum og mánuðum saman eftir því að fá umsamin laun greidd, að það geti falið í sér ákveðið tjón? Fólk þarf að greiða af lánunum sínum og greiða húsnæðiskostnað og annað. Er ekki eðlilegt að við reynum að setja einhvern ramma utan um atvinnulífið þannig að hluti af þessu tjóni lendi þá einmitt á atvinnurekandanum sem sveik fólkið um umsamin laun, að það sé ekki bara launafólkið sjálft sem ber allan kostnaðinn af þessari bið og að það sé komið til móts við það með einmitt févíti, eitthvað í þá átt sem mælt er fyrir um í þessu frumvarpi? Annars vona ég innilega að hæstv. félagsmálaráðherra, sem hefur væntanlega legið yfir þessu, komi og svari þessum gagnrýnisröddum fullum hálsi sem hér koma fram gegn févíti og gegn því sem lagt var upp með í lífskjarasamningum. Ég treysti því að hann geri það í seinni ræðu síðar í dag.