152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

starfskjaralög.

589. mál
[17:53]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni fyrir fyrirspurnina öðru sinni. Hann talar hér um að það taki langan tíma að fá úrlausn mála. Það er rétt, það getur tekið langan tíma. En við erum hér líka að tala um að búa til opinbera nefnd og fyrr í dag vorum við m.a., þó að það sé óskylt mál, að ræða biðlista af hendi opinberar stofnunar, heilbrigðiskerfisins og Landspítalans, gagnvart liðskiptaaðgerðum hér og það sem einhverjir vilja kalla valkvæðar aðgerðir. Þar er tíminn óhemjulangur, oft talinn í árum þar til fólk fær bót meina sinna. Af hverju ætti þá einhver opinber nefnd, sem hér er lagt til að verði skipuð, að vinna eitthvað hraðar? Ég spyr bara og velti því fyrir mér. En það má færa rök fyrir því að rétt sé að dómstólar ákvarði atvinnurekendum févíti en ekki einhver opinber nefnd sem færir ágreining á milli aðila á almennum vinnumarkaði til hins opinbera.