152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

starfskjaralög.

589. mál
[18:22]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og bendi á að það er alveg hægt að lögfesta hlutlæga bótareglu en þó setja inn fyrirvara um að hægt sé að hafna févíti eða bótagreiðslu ef málefnalegar réttlætingar og ástæður eru til staðar. Annars langar mig hér í seinni umferð að fá að spyrja hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hvort hann sé sammála því sjónarmiði, sem birtist áðan í ræðu hæstv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, að það sé vandséð hvaða tjóni launamaður verður fyrir umfram launatap þegar atvinnurekandi greiðir honum of lág laun sem bæta þarf með álagningu févítis. Ég spyr hvort hæstv. ráðherra sé sammála því sjónarmiði að eina tjónið sem launamaður yrði alla jafna fyrir væru lægri útborguð laun en hann á rétt á.