152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

starfskjaralög.

589. mál
[18:25]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hefði vænst þess af hæstv. félagsmálaráðherra að hann tæki meira slaginn hér í þingsal gegn þeirri hörðu gagnrýni sem kemur frá samstarfsflokknum þegar kemur að grundvallarmáli sem samið var um við undirritun lífskjarasamningsins. Það hefur komið í ljós hér í þingsal í dag að talsmaður Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og viðskiptamálum, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, er mjög á móti ákveðnum atriðum í frumvarpinu og gagnrýnir þau mjög harðlega. Hann gerir það út frá ákveðnum sjónarmiðum sem maður hefði kannski vænst að ráðherra málaflokksins hefði skýrari svör við.

Ég vil fá að benda á það í seinni ræðu minni að auðvitað hefði verið hægt að lögfesta févíti á miklu einfaldari hátt. Það er enginn sem segir að koma þurfi á fót einhverjum sérstökum áfrýjunarvettvangi umfram almenna dómstóla þegar lög eru sett um févíti. En sá vettvangur sem er búinn til með þessu lagafrumvarpi — þau ferli sem hér er verið að lögfesta eru í raun, hefði maður haldið, einmitt til þess gerð að gera þessi lög minna íþyngjandi fyrir atvinnurekendur sem getur þá bitnað á launafólki. Það verður í raun erfiðara og meira vesen fyrir launafólk að fá bætur þegar brotið er á því. Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir að í raun sé alls ekki orðið við þessum kröfum sem hafa heyrst hvað hæst, ekki bara frá Eflingu heldur líka frá forseta Alþýðusambandsins, sem hefur verið mjög skýr með það að setja eigi hlutlæga bótareglu, hefur talað mjög eindregið fyrir því í ræðu og riti — þrátt fyrir að verkalýðshreyfingunni verði ekki að ósk sinni hér og búið sé til ákveðið kerfi til að verja sérstaklega hagsmuni atvinnurekenda — virðast Sjálfstæðismenn samt vera með mikla fyrirvara við frumvarpið. Kannski skýrist þessi andstaða flokksins að einhverju leyti af því hvað þetta kemur fram seint, þetta hefði náttúrlega átt að koma fram á síðasta kjörtímabili. Samið var um þetta 2019 og nú eru bráðum að hefjast kjarasamningar að nýju á almenna markaðnum. Þetta mál og einnig réttarbætur fyrir leigjendur á ónýtum leigumarkaði — hvorugt þeirra mála hefur enn verið samþykkt.

Eins og ég sagði áðan er alveg hægt að útfæra févíti án sérstaks áfrýjunarvettvangs. Þá er það bara þannig að févíti leggst ofan á upphæð fyrirliggjandi launakröfu, þessarar vangreiddu kröfu, sem launamaður og stéttarfélag geta þá eftir atvikum neyðst til að sækja fyrir dómi, fáist hún ekki greidd. Þá eru þær varnir til staðar að sé atvinnurekandi sýknaður fyrir dómi af launakröfum þá er hann líka sjálfkrafa sýknaður af févítinu. Hann hefur þá ekki brotið gegn löglega umsömdum kjörum launamanns. Sé krafan dæmd launamanni í vil getur dómari í leiðinni tekið sjálfstæða afstöðu til þess hvort fyrir hendi hafi verið einhverjar málefnalegar réttlætingarástæður til að fella niður févítið. Það eru ýmsar leiðir til að lögfesta févíti og mér líst ekkert illa á frumvarpið sem lagt var fram við fyrsta yfirlestur þótt kannski megi skerpa á ýmsum atriðum. Það væri hægt að ganga lengra en þetta virðist vera það sem stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um og það sem bæði ASÍ og Samtök atvinnulífsins virðast hafa komið sér saman um.