152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

greiðslur vegna umönnunar langveikra eða fatlaðra barna.

591. mál
[18:39]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Já, það er margt rosa gott í þessu frumvarpi til laga. Mig langar þó að nefna að tekjutengdar greiðslur eru einungis til þriggja mánaða í senn, eins og segir þar. Það þykir mér vera mjög skammur tími og kannski eitthvað sem mætti endurskoða. En svo er annað sem mig langar að tala um, þ.e. að grunngreiðslur skerðast vegna annarra tekna, það er tekið fram. Þar finnst mér ekki vera hugað að þeim foreldrum sem fara í umönnunarstörf vegna barna sinna og sem þrá oft að fara út á vinnumarkaðinn aftur — að það sé ekki tekið á því að grunngreiðslur þeirra skerðast með atvinnuframlagi þeirra. Það þykir mér ekki gott vegna þess að lengi hafa heyrst háværar raddir foreldra langveikra og fatlaðra barna vegna þessa og þó að verið sé að ræða um að draga úr félagslegri einangrun þá virðist það samt vera þannig að það er ekki nægilega mikið hlustað á þessar háværu raddir sem oft hafa heyrst. Félagsleg einangrun og skert atvinnuþátttaka eru forspárþættir varðandi það hvort fólk kemur sér aftur út á vinnumarkaðinn og því lengur sem þú ert ekki á vinnumarkaði því erfiðara er að fara aftur út á hann. Foreldrar eiga að hafa val og það á ekki að skerða þessar grunngreiðslur við að þeir fari út á vinnumarkaðinn. Svo er talað er um að báðir foreldrar fái þessar greiðslur. Það eru ekki allir sem eiga tvo foreldra, það er bara ekki þannig. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. félags og vinnumarkaðsráðherra hvort hann ætli að endurskoða þetta og tryggja það að hlustað verði betur á þetta ákall foreldra og passa að grunngreiðslurnar skerðist ekki vegna annarra tekna.