152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[19:44]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil bara árétta það sem ég nefndi hérna áðan. Ég veit svo sem ekki hver ástæðan fyrir þessu er að mati hæstv. ríkisstjórnar. Mér þykir ástæðan augljós fyrir því að í þessu frumvarpi, sem er lagt fram af hæstv. dómsmálaráðherra, eru ákvæði sem sannarlega heyra undir verksvið hæstv. félagsmálaráðherra. Það eru breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Hæstv. félagsmálaráðherra hefur þegar lagt fram annað frumvarp fyrir þetta þing um breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga þar sem þessu ákvæði var sleppt. Það er algjörlega ótækt að við séum að ræða mál sem heyra undir svið ráðherra sem ekki eru staddir í salnum. Ég vil líka taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar að það vekur sérstaka furðu í ljósi þess að aðrir hæstv. ráðherrar í þessari ríkisstjórn hafa haft orð á því hvað þeir hlakki til að sjá þetta frumvarp hér á dagskrá, þó að mér sé það fullkomlega óskiljanlegt. (Forseti hringir.) Þess heldur væri mjög ánægjulegt að geta átt þessa umræðu (Forseti hringir.) við þessa hæstv. ráðherra.