152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[21:28]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurningarnar, sem eru virkilega góðar. Jú, ég vil taka undir það að margt í þessu frumvarpi er, held ég að megi segja, lögfræðilegur óskapnaður. Það er ýmislegt þarna sem mun valda vandkvæðum í túlkun og er spurning hvort standist mannréttindasamninga og annað og sannarlega mun þetta ekki auka skilvirkni í þessum málaflokki. Varðandi þær tafir sem orðið geta á flutningi úr landi eftir að lokaniðurstaða hefur fengist á stjórnsýslustigi þá er þetta ákaflega mikilvæg spurning frá hv. þingmanni. Það er nefnilega önnur breyting sem til stendur að gera á lögunum sem eykur ekki skilvirkni og er afturför frá þeim réttarbótum sem þó hafa verið gerðar. Það er að þessi frestsákvæði, þessi 12 mánaða ákvæði, hafa verið túlkuð þannig að átt sé við 12 mánuði frá því að einstaklingur sækir um þangað til hann er fluttur úr landi. Þessu á að breyta þannig að átt sé við 12 mánuði frá því að hann sækir um þangað til að málinu er lokið á stjórnsýslustigi. Það þýðir að lögreglan hefur restina af ævi þessa einstaklings til að reyna að koma honum úr landi og það mun ekki hafa nein áhrif á réttarstöðu hans hér á landi. Það er enn annað, enda gæti ég staðið hér í allan vetur og talað um það sem mér þykir vera rangt í þessu frumvarpi.

Ég er búin að gleyma seinni spurningu þingmannsins. (HVH: Það er yfirskrift 33. gr. …) — Já, það er varðandi skilgreininguna á umsækjanda um alþjóðlega vernd. Það er náttúrlega eitt það alvarlegasta í þessu frumvarpi, af því að allt er eitt það alvarlegasta. Það er auðvitað augljóst að tilgangurinn með þessu, þ.e. að einstaklingur sem hefur fengið synjun á stjórnsýslustigi teljist ekki lengur umsækjandi um alþjóðlega vernd, er að svipta fólk réttindum. Það byggir á mikilvægum misskilningi, sem er sá að 8.000 kr. sem fólk fær á viku frá Útlendingastofnun sé ástæðan fyrir því að fólk er hér á landi. Það er ekki svo.