152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[21:35]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til breytinga á lögum um útlendinga. Ég ætla að fara aðeins yfir það sem helst stingur í augu við fyrstu yfirferð á þessu frumvarpi. Í fyrsta lagi er það sú stefnubreyting sem boðuð er í bæði 1. gr. frumvarpsins og 5. gr. þess þar sem er sú þjónustusvipting sem hér hefur mikið verið talað um í dag: Umsækjendur um alþjóðlega vernd eru sviptir réttinum til grunnþjónustu þegar þeir hafa fengið lokasynjun á umsókn sinni. Tekur sú svipting gildi eftir 30 daga.

Hér var því haldið á lofti í ræðu hv. þingmanns Vinstri grænna að ákveðnar undanþágur væru í þessu ákvæði, en ég held að mikilvægt sé að hafa í huga að þær undanþágur gilda ekki um mál þar sem umsækjendur koma frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki og umsókn hefur verið metin bersýnilega tilhæfulaus. Hér er í rauninni verið að leggja til breytingar sem snúast um að svelta ákveðna hópa til samstarfs. Þetta er ákveðin skammsýni vegna þess að eins og hér hefur verið farið yfir má ætla að þessir hópar muni þurfa að sækja þjónustu til sveitarfélaga í staðinn.

Mér finnst það ákveðið áhyggjuefni að hér í dag hefur komið fram sú túlkun á gildandi útlendingalögum að 33. gr. og ákvæði hennar hætti einhvern veginn að gilda um útlendinga, um umsækjendur um alþjóðlega vernd, um leið umsókn þeirra hefur verið synjað, eða ég hef alla vega ekki skilið hæstv. dómsmálaráðherra öðruvísi. Það er vissulega þannig að í því frumvarpi sem við erum að ræða hér í dag er verið að skrifa það inn í lögin að útlendingur teljist ekki umsækjandi um alþjóðlega vernd þegar hann hefur fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi. En framkvæmd gildandi laga hefur auðvitað verið þannig að fólk hefur átt rétt á þessari þjónustu og fengið hana nema það sé sérstaklega svipt henni, t.d. í reglugerð o.s.frv.

Í 2. gr. þessa frumvarps er mælt fyrir um að synjun á efnismeðferð á grundvelli 36. gr. sæti sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála nema umsækjandi óski þess sérstaklega að kæra ekki. Skal greinargerð vegna kæru berast kærunefnd innan 14 daga frá birtingu ákvörðunarinnar. Með þessu er verið að stytta þann tíma sem umsækjendur hafa til að leggja fram og afla gagna. Hér hefur því verið haldið fram að með þessu frumvarpi sé bara verið að færa kerfið nær því sem tíðkast á öðrum Norðurlöndum. En hér erum við einmitt með skýrt dæmi um að í rauninni er verið að gera þann tíma sem umsækjendur hafa til að leggja fram og afla gagna styttri en hann er víðast hvar á Norðurlöndunum.

Ef við skoðum svo 6. gr. þessa frumvarps þá snýst hún um að undanskilja umsækjendur um alþjóðlega vernd frá ákveðnum lágmarksréttindum sem borgurum eru tryggð í stjórnsýslulögum. Það kemur hérna fram í síðustu málsgrein greinarinnar: „Ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um endurupptöku gilda ekki um ákvarðanir í málum er varða alþjóðlega vernd.“

7. gr. felur í sér útilokun þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í öðru ríki, eins og Grikklandi eða Ítalíu, frá því að geta fengið alþjóðlega vernd hér á landi. Já, já, svo er vísað til undanþága sem eru nú þegar í gildandi lögum en hafa aldrei verið nýttar, eins og það breyti einhverju stórkostlegu hér um. Þessi 7. gr. er auðvitað bara afturför, þetta eru umsækjendur sem eru oft í mjög viðkvæmri stöðu, hafa lengi verið á flótta, hafa búið við óviðunandi og ömurlegar aðstæður í flóttamannabúðum á jaðri Evrópu þar sem aðstæður eru ekki mönnum bjóðandi. Með því sem hér er verið að leggja til er Ísland í rauninni að taka minni þátt í því að axla þessa alþjóðlegu ábyrgð í Evrópu á að taka á móti fólki. Við dembum þá frekar fólkinu yfir á Grikkland og Ítalíu, kreppuhrjáð ríki sem eiga í miklu basli með að taka á móti flóttafólki.

Hér er líka á vissan hátt verið að innleiða einhvers konar allsherjar Dyflinnarreglugerð, heimild til að synja öllum sem komið hafa til eða haft tengsl við önnur ríki þar sem þeir þurfa ekki að óttast ofsóknir. Þetta er í rauninni mjög vítt til túlkunar. Það væri jafnvel hægt að túlka þetta þannig að fólk frá Úkraínu sem fór fyrst til Póllands, Moldóvu, Ungverjalands, eða Afganir sem fóru fyrst til Tyrklands, Sýrlendingar sem komu til Ítalíu í gegnum Egyptaland, Líbíu — þetta er galopin heimild sem maður getur alveg ímyndað sér að væri hægt að nota gegn þessum hópum flóttafólks.