152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[22:05]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Í ákvæði 5. gr. frumvarpsins er verið að tala um niðurfellingu réttinda útlendinga sem hafa fengið endanlega synjun á umsókn um alþjóðlega vernd þegar 30 dagar eru liðnir frá því að synjun átti sér stað. Þar er fjallað um að ekki sé heimilt að fella niður réttindi barna, foreldra eða umsjónarmanna þeirra og annarra heimilismanna sem teljast til ættingja barna, það megi ekki fella niður þjónustu við barnshafandi konur og alvarlega veika einstaklinga og fatlaða einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir. Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Með alvarlegum veikindum er átt við þá einstaklinga sem ekki eru fyllilega færir um að sjá um sig sjálfir, hvort sem er vegna andlegra eða líkamlegra veikinda, og velferð þeirra yrði alvarlega ógnað ef réttindi þeirra yrðu niður felld.“

Ég staldra aðeins við þetta vegna þess að einstaklingur sem er alvarlega veikur kann að geta hugsað um sig ef hann fær rétta heilbrigðisþjónustu, segjum lyf og aðra læknisþjónustu. Hér getur verið um að ræða einstakling sem þarf að fara í nýrnavél reglulega eða fá einhvers konar lyfjagjöf reglulega eða þarf að komast í einhvers konar skanna reglulega til að kanna — einhvers konar læknismeðferð. Hann getur sinnt sínu daglega lífi, getur séð um sig sjálfur, eins og lögin segja. Hver á að meta þetta? (Forseti hringir.) Hver er til þess bær og hvernig á að passa að þeir sem þurfa heilbrigðisþjónustu fái hana?