152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[22:12]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég les lögin þá kemur hvergi fram hver eigi að meta þetta, hver eigi að meta hvernig þessi skilyrði eða hvort þessi skilyrði séu uppfyllt, þannig að þá er einfaldast að ganga út frá því að það falli í skaut starfsmanna Útlendingastofnunar að meta hvort viðkomandi eigi rétt á þjónustu eða ekki. Ef það er ekki gerð nein sérstök grein fyrir því þá má ganga út frá því að það séu þau sem fari með þetta ákvörðunarvald um líf og réttindi fólks. Ég segi: Því er nú verr og miður vegna þess að það hefur endurtekið komið fram að þeim er slétt sama. Þau eru til í að henda fólki út á götuna ef það verður til þess að hægt sé að þvinga það í læknisrannsókn og henda því úr landi. Þetta eru bara staðreyndir málsins. Svona hefur það verið. Það er því miður ekki í góðum höndum hver á að meta það.