152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[22:13]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegi forseti. Yndislestur er gott og fallegt íslenskt orð, oft notað í samhengi við börn og hvað sé góð leið fyrir þau til að læra að lesa, hvað sé þeim hollast. Auðvitað á það við um fullorðna líka en orðið þýðir auðvitað að þetta er lestur sem er til ánægju og ekki tengdur einhverjum skyldum eins og skóla eða vinnu. Andstaðan við yndislestur hlýtur þá að vera óyndislestur, það er þá skyldulesning. Það er það sem ég hef legið yfir. Það er að sjálfsögðu skylda mín að kynna mér fyrirliggjandi frumvarp og fyrri frumvörp, sem eru náttúrlega mörg og löng, og kynna mér söguna jafnvel lengra aftur, eins og hefur verið rakið hér mjög vel, um gildandi lög, tilurð þeirra, muninn á því hvernig þau eru lögð upp og hvernig þetta frumvarp er unnið, þetta endurtekna frumvarp, þannig að ég hef kannski ekki rosa miklu að bæta við það allt saman.

En ég vil koma inn með þann vinkil að mér finnst þetta svolítið einkennast af stefnu- og reiðileysi. Nú segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:

„Í samræmi við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna á Ísland á að taka vel á móti umsækjendum um alþjóðlega vernd sem eru í hættu og eiga rétt á að komast í skjól.“

Þarna náttúrlega liggur hundurinn grafinn af því að með þessum fyrirvara er hægt að skilgreina þann rétt hvernig sem fólki sýnist. Samkvæmt skilgreiningu er tekið vel á móti fólki sem á rétt á að fá þetta skjól en þarna er ekki verið að taka neina afstöðu til þess hversu rúmur sá réttur á að vera og hvaða viðmið á að notast við. En því er náttúrlega svarað í frumvarpinu sem hér er til umræðu og þarf ekkert að velkjast í vafa um það, hvorki af lestri frumvarpsins né mörgum umsögnum þar sem er bent á hvað verið er að gera með frumvarpinu. Og orð hæstv. dómsmálaráðherra sjálfs útskýra þetta bara vel; að meiningin með frumvarpinu sé fyrst og fremst að þrengja það hverjir eigi rétt á því að fá efnismeðferð. Það er út frá einhverri furðulegri þráhyggju sem virðist í upphafi þegar þetta frumvarp var skrifað — af því að þetta er í raun alltaf sama frumvarpið þó að það taki smábreytingum og verði að sumu leyti verra og að sumu leyti betra eftir því sem útgáfum vindur fram, en þráhyggjan er sem sé gagnvart því að það að einhver hafi fengið vernd í öðru ríki eigi sjálfkrafa að ógilda algerlega rétt fólks til að fá meðferð hér. Þetta hefur verið sagt ítrekað, bara mjög einfalt. Þetta helgast af því að oft er talað um kerfið í niðrandi merkingu; kerfið er bara eitthvað sem vinnur fyrir sjálft sig og mallar áfram. Kerfið er í sjálfu sér hlutlaust hugtak en í þessari neikvæðu merkingu er verið að tala um svolítið þrönga sýn á kerfið eða kannski afmarkaða anga þess sem fá bara að ráða. Það sem ég held að gerist í þessu tilfelli er að Útlendingastofnun og þeir sem hafa með þetta að gera og bera ábyrgð á því að fara yfir umsagnir, sem er oft mjög erfitt allt saman og hlýtur að taka á — ég sé ekki að þetta frumvarp taki tillit til neinna annarra hagsmuna en þeirra kerfishagsmuna hvað Útlendingastofnun finnst einfaldast og þægilegast miðað við það hverju henni er skammtað. Og að sjálfsögðu þá er það henni í hag að reyna, eins og þetta er kallað, að gera kerfið skilvirkara með því að geta auðveldlega hent út stærri stöflum af umsögnum. En að sjálfsögðu — ja, mér finnst það alla vega sjálfsagt — er það mjög einstrengingsleg og ómannúðleg afstaða að það sé bara með einu pennastriki hægt að segja: Ef þú hefur fengið vernd annars staðar þá ertu bara réttlaus. Það skiptir engu máli með persónulegar aðstæður, hvernig fólk hefur komið sér fyrir hér, hverjar aðstæður eru í hinu ríkinu þar sem fólk hefur fengið vernd og það er bara strokað út. Það er stærsti anginn af þessu frumvarpi. Svo er náttúrlega verið að fella niður rétt fólks á þjónustu eftir að það fær synjun og fleira. Það ber svolítið að sama brunni, að auka skilvirkni.

Þetta kemur síðan ofan á það að síðan fara kannski aðrir angar kerfisins í einhverja aðra átt. Mér finnst það t.d. vera ágætisupplegg þar sem verið er að aðskilja umsóknir og réttindamál frá þjónustunni, færa þjónustuna yfir í félagsmálaráðuneytið, af því að það er að mörgu leyti óheppilegt að þessi réttindamál og síðan þjónustuveitingin sé á hendi sama aðila. En þetta talar einhvern veginn ekkert saman og þess vegna er náttúrlega verið að kalla eftir því hver sé nú afstaða hæstv. félags- og atvinnuvegaráðherra til þessara mála af því að það er eins og við séum að horfa á mismunandi hólf og það er mjög óskýrt hver afstaða ríkisstjórnarinnar er í heild. Svona horfir þetta pínu við mér.

Og, eins og hér hefur verið rakið, þá fáum við nú gríðarlegan fjölda umsækjenda um vernd frá Úkraínu, sem kollvarpar eiginlega öllum forsendum og gerir þennan pínulitla anga af kerfinu, sem verið er að reyna að gera skilvirkari með því að taka ekki við fólki sem hefur fengið vernd annars staðar, einhvern veginn hjákátlegan. Allt þetta ætti náttúrlega gefa tilefni til að skoða málið, eins og var gert þegar núgildandi lög voru sett, í svolítið stærra samhengi: Að ríkisstjórnin axli þá sameiginlegu ábyrgð sem hver og einn ráðherra úr ríkisstjórninni í sameiningu hefur og hætti þessum smákerfisstillingum sem virðast byggjast á þröngum hagsmunum.