152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[23:33]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er alveg rétt. Við ákveðum að aðstæður fólks séu óviðunandi í flóttamannabúðum og þess vegna sendum við það ekki til baka. Auðvitað væri frábært ef stjórnvöld í Grikklandi væru með einhvers konar aðstoð við fólk sem hefur fengið vernd, sem hefur fengið dvalarleyfi þar, en það er ekki þannig og íslensk stjórnvöld vita það alveg. Þá ættum við að vera að horfa á annað ákvæði laga um útlendinga sem er bann við endursendingu. Ég verð að segja að á minni lögmannstíð byggði ég alltaf líka á því ákveðna ákvæði laganna þar sem íslenskum stjórnvöldum er bannað að endursenda manneskju út í slíkar óviðeigandi og hættulegar aðstæður þar sem lífi og heilsu viðkomandi er stefnt í hættu. Þetta er náttúrlega svo ofboðslega matskennt og það er kannski nákvæmlega það sem var svo óþægilegt við ræðu hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur hér í dag þar sem hún sagði að við yrðum bara að treysta því að þetta yrði allt í lagi. Mat stjórnvalda á því hvað teljist óviðunandi aðstæður fyrir börn, að fara á götuna, að það sé í lagi — þegar lögin segja að það sé í raun bannað að senda einstaklinga út í slíkar aðstæður, hvernig getur það þá þótt vera í lagi?