152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[23:49]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Á undanförnum árum hefur það margsinnis gerst að kærunefnd útlendingamála slær á fingur Útlendingastofnunar fyrir að brjóta á réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd. Auðvitað er það hárrétt, sem fram kom í máli hæstv. dómsmálaráðherra fyrr í kvöld, að í staðinn fyrir að vera alltaf að gagnrýna Útlendingastofnun, eins og oft er gert í fjölmiðlum, er mikilvægt að hafa í huga að það er ráðherra sem mótar stefnuna í útlendingamálum. Útlendingastofnun starfar í umboði ráðherra. Ráðherra fer með yfirstjórnunar- og eftirlitsskyldur gagnvart stofnuninni og hlýtur að þurfa að bregðast við þegar það gerist trekk í trekk að Útlendingastofnun tekur ákvarðanir sem fela í sér brot gegn mannréttindum fólks, oft óafturkræf brot gagnvart fólki og engin leið til að leiðrétta skaðann gagnvart því af því að búið er að vísa því úr landi. Mér sýnist sitthvað í þessu frumvarpi vera tilraun til að lögfesta eitthvað af því sem Útlendingastofnun hefur gjarnan viljað gera í sinni lagaframkvæmd en ekki komist upp með.

Hvað varðar frumvarpið í heild sinni, af því að hér hefur líka verið rætt um þátt Vinstri grænna, þá sýnist manni að verið sé að nota mannréttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd sem hálfgerða skiptimynt í ríkisstjórnarsamstarfinu. Hv. þingmaður Vinstri grænna sagði hér áðan að ýmislegt gengi á, og glotti svolítið þegar við vorum að ræða þetta. Það sem mig langar að vekja athygli á, áður en málið fer til nefndar, er nátengt því sem hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hefur verið að tala um hér í kvöld, þ.e. b-liður 7. gr. frumvarpsins. Hann felur í sér mjög róttæka breytingu á útlendingalöggjöfinni og útvíkkar möguleika stjórnvalda til að vísa fólki úr landi og sleppa því að taka umsóknir þess til efnislegrar meðferðar.

Greinin hljóðar svo:

„Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: umsækjandi hefur slík tengsl við annað ríki að eðlilegt og sanngjarnt er að hann dvelji þar, ferðist eða sé fluttur þangað enda þurfi hann ekki að sæta ofsóknum þar, geti óskað eftir að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.“

Þetta er breyting á 36. gr. útlendingalaga og bætir við þessum d-lið. Í greinargerð með frumvarpinu segir um b-lið 7. gr. að með frumvarpinu sé lagt til að ákvæðið mæli fyrir um þau tilvik þegar umsækjandi um alþjóðlega vernd hefur slík tengsl við annað ríki að sanngjarnt og eðlilegt geti talist að hann dvelji þar. Við mat á því hvað telst sanngjarnt og eðlilegt skal m.a. líta til lengdar dvalar, fjölskyldutengsla og möguleika viðkomandi til að dveljast eða öðlast rétt til dvalar í ríkinu. Þetta gæti komið til skoðunar þegar umsækjandi hefur ekki dvalið í ríkinu en hefur náin fjölskyldutengsl. Svo segir að ekki sé gerð krafa um að viðkomandi ríki sé aðili að flóttamannasamningnum en nauðsynlegt sé að þau réttindi sem mælt er fyrir um í honum séu virt.

Rauði krossinn hefur bent á að í mörgum tilvikum verði nær ómögulegt að framkvæma ákvarðanir sem eru teknar á grundvelli þessa nýja d-liðar, enda sé þá gert ráð fyrir að synja fólki um efnismeðferð á grundvelli þess að það hafi dvalið í nokkra daga í öðru ríki eða hafi fjölskyldutengsl við einstaklinga með dvalarleyfi í ríkinu. Rauði krossinn bendir á að ekkert sé fjallað um það í frumvarpinu hvernig íslensk stjórnvöld sjái fyrir sér framkvæmd endursendingar til ríkja á þessum grundvelli enda engir viðtökusamningar í gildi nema við aðildarríki Dyflinnarreglugerðarinnar. Rauði krossinn bendir líka á að það hljóti að þurfa að gera auknar kröfur til mats á aðstæðum í mögulegu móttökuríki.