152. löggjafarþing — 75. fundur,  17. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[00:20]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Ég vil aðeins tala hér um sjúkraskrá og það að hafa aðgang að sjúkraskrá útlendinga, flóttafólks. Það er á skjön við persónuverndarlög og annað og mér finnst skrýtið hvernig verið er að mismuna fólki út frá uppruna, út frá því hvaðan það kemur. Ég skil þetta ekki alveg. Ætlum við að fara í þá vegferð að láta fólk sem er á flótta og þarf alþjóðlega vernd falla í annan flokk, t.d. með sjúkraskránni? Ætlum við að undanskilja það frá lögum um aðra sem búa hér á landi? Mér finnst það skrýtið. Um er að ræða mjög miklar persónuupplýsingar og örugglega þær persónulegustu upplýsingar sem hægt er að nálgast um einstaklinga. Mér finnst því mjög umhugsunarvert og brýnt að því sé ekki tekið af einhverri léttúð að hægt sé að nálgast upplýsingar um fólk í sjúkraskrá. Mér finnst að slíkt þurfi að rökstyðja með mjög afdráttarlausum hætti, þ.e. hvers vegna ætti að leyfa þetta. Það þurfa að vera mjög góð rök á bak við það að þetta verði leyft; að gerður sé svo mikill mismunur á fólki sem býr hér og öðrum sem sækja um að fá að vera hér.

Þetta er eitthvað sem má alls ekki taka af léttúð og það er mjög alvarlegt mál að ná í upplýsingar í sjúkraskrá um einstaklinga. Fyrir mér ætti alltaf að þurfa samþykki frá einstaklingunum, eins og væntanlega er gert við aðra, áður en menn nálgast upplýsingar í sjúkraskrá. Það er bara mjög skýrt með svona sjúkraskrárkerfi. Ég hef unnið á Landspítalanum og það er rosalega vandmeðfarið að hafa aðgang að sjúkraskrá. Það að ætla að veita starfsfólki aðgang að slíkum persónuupplýsingum um einstaklinga sem eru í neyð þarf að vera mjög vel ígrunduð og mjög vel rökstudd ákvörðun. Það þarf líka að rökstyðja hvers vegna ekki er hægt að fara aðrar leiðir.

Hvert er markmiðið með þessu? Er markmiðið mikilvægara en að þessir einstaklingar njóti sömu réttinda og aðrir? Það þarf að rökstyðja það mjög vel hvers vegna þessi réttindi ættu að vera skert hjá þessum einstaklingum og af hverju ekki er hægt að fara aðrar leiðir en þessar til að fá slíkar upplýsingar. Viðkvæmustu upplýsingar sem væntanlega eru til um flesta eru í sjúkraskrám einstaklinga. Það er mjög mikilvægt að þetta sé skoðað. Eins og ég hef talað um áður langar mig bara að leggja áherslu á að við skoðum hverjar afleiðingarnar geta orðið fyrir okkur ef við sinnum ekki þjónustu og framfærslu og öðru fyrir fólk sem fær synjun.