152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegur forseti. Þann 6. september 2014 birtist í Fréttablaðinu grein sem bar titilinn „Afglæpavæðing einkaneyslu fíkniefna gæti orðið íslenskur veruleiki“. Þar var rætt við nokkra þáverandi þingmenn um þessa hugmynd sem þá þótti nokkuð nýstárleg, að hætta að refsa notendum vímuefna fyrir neyslu eina og sér, óháð því hvaða vímuefni væri um að ræða. Síðan þá eru liðin nokkur ár og umræðan um málið hefur verið heilmikil. Frumvörp hafa jafnvel verið lögð fram en ekki náð fram að ganga þrátt fyrir að þingmenn segist margir hverjir vera jákvæðir fyrir málinu. Alltaf er hvikað þegar á hólminn er komið, umbótum hafnað af því að það vantar eitthvað óskilgreint upp á og það þarf að skoða þetta betur eða vinna hitt betur.

Virðulegi forseti. Þetta er ólíðandi. Það er svívirðilegt að þingmenn noti málaflokkinn til að skreyta sig með fjöðrum skaðaminnkunar án þess að fylgja orðum sínum eftir með því að gera nauðsynlegar breytingar. Viðkvæmt og jaðarsett fólk líður fyrir refsistefnu hvern einasta dag meðan þingheimur dinglar umbótum frammi fyrir nefinu á því og kippir þeim svo strax aftur til baka. Svo fylgja stundum yfirlýsingar eins og sáust hjá hæstv. fjármálaráðherra í fjölmiðlum um að við þurfum að fara varlega í að senda skilaboð um að fíkniefni séu lögleg, eins og refsilöggjöf sé einhvers konar sendibréfaskrif en ekki inngrip í líf fólks. Rökin fyrir því af hverju það er siðferðilega rangt og líka praktískt séð vond aðferðafræði að reyna að refsa fólki út úr heimi fíkniefna eru hins vegar löngu komin fram og margtuggin. Nú er búið að stofna annan starfshóp og vonandi koma frá honum afgerandi tillögur. Ég hvet þingheim til að hætta að stíga alltaf skref til baka og klára bara afglæpavæðinguna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)