152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Nú er nýlokið kosningum til sveitarstjórna og full ástæða er til að óska kjörnum fulltrúum hringinn í kringum landið til hamingju með sitt kjör. En mig langar að vekja athygli á því að allir þeir flokkar sem fengu sæti í borgarstjórn eru á móti flugvellinum í Vatnsmýri og vilja sjá byggð á þessu svæði. Á opnum fundi hjá Samtökum um bíllausan lífstíl 13. apríl síðastliðinn staðfesti Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, að hann vildi Reykjavíkurflugvöll burt. Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er mikilvægur fyrir sjúkraflug, enda stutt á Landspítalann, og sá sem hér stendur hefur persónulega reynslu af því hversu mikilvægt það er að vegalengdin verði ekki aukin.

Nú er hafin uppbygging á nýjum spítala og því verðum við að taka þennan slag. Við verðum að verja stöðu vallarins. Flugvöllurinn er mikilvægur fyrir hér um bil alla opinbera stjórnsýslu og aðra þjónustu ríkisins sem er staðsett í Reykjavík, höfuðborg allra Íslendinga, ekki bara sumra — allra Íslendinga. Það er ekki sjálfgefið, hvorki að öll þjónustan sé í Reykjavík né að Reykjavík sé höfuðborg Íslendinga. Það er ákvörðun. Það fer ekki bara eftir massa fólks. Hvaða skilaboð er Reykjavíkurborg að senda okkur, fólkinu úti á landi? Því að það fylgja skyldur við alla landsmenn. Fólk á landsbyggðinni hefur haft miklar áhyggjur af þessari þróun, sérstaklega eftir nýliðnar kosningar þar sem flokkar sem ýmist slá í eða úr eða hafna flugvellinum með öllu auka fylgi sitt, jafnvel flokkur sem áður kenndi sig við flugvallarvini. Ég á bara eina setningu eftir: Svo bregðast krosstré sem önnur tré.