152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Herra forseti. Þær gerast varla táknrænni skoðanakannanirnar en sú sem fram fór í Evrópu um síðustu helgi þegar mikill meiri hluti veitti Úkraínu afgerandi stuðningsyfirlýsingu með símakosningu sinni í Eurovision. Ekki ætla ég með því að gera lítið úr hinu ágæta lagi sem var framlag landsins, en stuðningurinn í þágu þess almennt var áþreifanlegur og áhrifamikill. Þó að langt sé liðið frá því að átökin hófust og umræða okkar hér á okkar góða landi hafi færst yfir á aðra hluti að einhverju leyti megum við ekki gleyma því að staðan er enn grafalvarleg og krefst athygli okkar, staða sem kallar sem fyrr á samstöðu með vestrænum ríkjum í baráttu þeirra fyrir virðingu fyrir alþjóðalögum og sjálfsákvörðunarrétti þjóða, sem og aðgerðir sem verður að inna af hendi til að standa undir þeirri samstöðu. Herlaus þjóð getur ekki annað en sett það í samhengi hve mikið við eigum undir því varnarbandalagi sem við tökum þátt í með aðild að NATO, varnarbandalagi sem hefur þann megintilgang að tryggja frelsi og öryggi aðildarríkja sinna með áherslu á lýðræðisleg gildi í þágu friðar.

Þau tímamótatíðindi berast nú að hernaðarlega sterkari þjóðir en við muni sækja um aðild að bandalaginu; Svíþjóð og Finnland. Komið hefur fram að Ísland mun fylgja Norðmönnum og Dönum til að styðja þessa norrænu vini okkar í þeirri vegferð og að ekki sé ástæða til að ætla annað en að fullur stuðningur þingsins verði um málið, sem er fagnaðarefni. Fyrir utan að styðja við þann sjálfsagða sjálfsákvörðunarrétt þessara ríkja mun aðild þeirra einnig styrkja bandalagið, ekki eingöngu hernaðarlega heldur einnig styrkja grunngildi bandalagsins um að verja gildi okkar, frelsi og mannréttindi.