152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég gerði hér að umtalsefni þann 9. mars hvernig hundruð öryrkja, sem ætluðu að nýta sér Covid-úrræði um úttekt séreignarsparnaðar, urðu fyrir skerðingu greiðslna frá Tryggingastofnun, þrátt fyrir að það sé alveg skýrt í bráðabirgðaákvæðinu um úrræðið að útgreiðslan eigi ekki að hafa áhrif á bætur. Sama dag lagði ég fram fyrirspurnir til félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra, krafði þá skýringa á þessu og óskaði eftir svörum um það hvort, hvernig og hvenær komið yrði til móts við allt þetta fólk. Síðan eru liðnir rúmlega tveir mánuðir og ekkert bólar á svörum. Fréttablaðið hefur nú fjallað um málið og tekið viðtöl við fólk sem líður fyrir þessa óvönduðu lagasetningu og lagaframkvæmd, fólk sem leysti út séreignarsparnaðinn í góðri trú að hvatningu stjórnvalda en hefur svo bara lent í örgustu vandræðum. Einn viðmælandinn, Júlíus Birgir Jóhannsson, er daufblindur og heyrnarlaus. Hann tók út séreignarsparnað til að greiða fyrir búnað sem hann þurfti á að halda vegna fötlunar sinnar og í kjölfarið skertust húsnæðisbæturnar hans og greiðslur frá Tryggingastofnun, þvert á ákvæði laganna.

Virðulegi forseti. Félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra verða að upplýsa Alþingi og almenning um alla þætti þessa máls og, það sem mestu skiptir, leiðrétta þetta, bæta fólkinu upp tjónið. Íslenska ríkið á að skila þessum peningum strax. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)