152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

útlendingar.

598. mál
[14:08]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á útlendingalögum. Breytingarnar eru nauðsynlegar til að bregðast við forsetaúrskurði nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, þar sem kveðið er á um að félags- og vinnumarkaðsráðherra fari með þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd skv. 27. og 33. gr. laga um útlendinga og setningu reglugerða samkvæmt þeim ákvæðum, sbr. 10. og 11. tölulið 1. mgr. 120. gr. laganna. Frumvarpið felur ekki í sér efnislegar breytingar á réttindum eða skyldum umsækjenda um vernd, einungis breytingar á því hvaða stjórnvöld bera ábyrgð á að veita réttindin. Með frumvarpinu eru, í samvinnu við félags- og vinnumarkaðsráðherra, lagðar til tvíþættar breytingar á lögum um útlendinga með það að markmiði að félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu verði tryggðar fullnægjandi lagaheimildir til að sinna þjónustu við umsækjendur um vernd.

Í fyrsta lagi er lagt til að lögfesta heimild félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og þess stjórnvalds sem ráðuneytið kann að fela að fara með framkvæmd þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd til vinnslu persónuupplýsinga. Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála, Þjóðskrá Íslands, barnaverndaryfirvöldum og lögreglu er nú þegar heimil slík vinnsla.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið fer, eins og áður segir, með framkvæmd 27. gr. útlendingalaga sem kveður á um móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um vernd, og 33. gr. laganna sem kveður á um réttindi umsækjanda um vernd hér á landi. Er breytingin nauðsynleg svo að viðkomandi ráðuneyti og stjórnvaldi verði kleift að sinna þjónustu við umsækjendur um vernd, en eðli málsins samkvæmt felur verkefnið í sér vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga, svo sem upplýsinga úr sjúkraskrám annarra heilbrigðisupplýsinga, til að hægt sé að meta þjónustuþarfir viðkomandi. Forsenda vinnslu slíkra persónuupplýsinga er skýr heimild í lögum.

Í öðru lagi er lagt til að skýra verkaskiptingu milli annars vegar málavinnslu og hins vegar þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Útlendingastofnun hefur hingað til annast bæði vinnslu umsókna um alþjóðlega vernd og þjónustu við umsækjendur. Að því sögðu hefur skýr skipting verkefna og ábyrgðar ekki verið nauðsynleg, líkt og nú þegar þjónustan flyst til annars stjórnvalds.

Virðulegur forseti. Ég hef farið yfir helstu atriði frumvarpsins en breytingarnar eru gerðar í því skyni að bregðast við forsetaúrskurði nr. 6/2022. Að öðru leyti vísast til greinargerðar frumvarpsins og athugasemda um einstök ákvæði og ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.