152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

Slysavarnaskóli sjómanna.

458. mál
[14:38]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Slysavarnaskóla sjómanna sem eru lög nr. 33/1991. Slysavarnaskóli sjómanna, sem rekinn er af Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, hóf starfsemi sína árið 1985 til að sinna öryggisfræðslu fyrir sjómenn. Námskeið skólans eru öllum opin, en á námskrá er að finna námskeið sem henta þeim sem vinna á sjó eða við hafnir. Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á fjölda afmarkaðra námskeiða sem sniðin eru að þörfum íslenskra sæfarenda. 57.000 manns hafa sótt námskeið skólans frá stofnárinu 1985. Skólinn gegnir þannig mikilvægu hlutverki í öryggismálum sjófarenda.

Með lögum nr. 33/1991 voru ákvæði sett um starfsemi skólans en talið var brýnt að löggilda starfsemina, tryggja honum nægjanlegt fjármagn og lögbinda nám fyrir alla sjómenn. Lögunum hefur tvívegis verið breytt vegna breytinga á Stjórnarráði Íslands. Aðrar breytingar hafa hins vegar ekki verið gerðar á þeim frá gildistöku. Á þeim tíma hafa þó orðið nokkrar breytingar á rekstri skólans og er tilgangur þessa frumvarps að leggja til breytingar á lögum um Slysavarnaskóla sjómanna til að þau skapi skólanum umgjörð sem endurspeglar starfsemi hans í dag.

Í fyrsta lagi er lagt til að við 1. gr. laganna bætist ákvæði sem kveði á um að Slysavarnafélagið Landsbjörg skuli halda fjárreiðum Slysavarnaskóla sjómanna aðskildum frá öðrum rekstri og starfsemi félagsins. Þá verði félaginu heimilt að reka skólann í sérstöku félagi sem verði aðskilið Landsbjörgu hvað varðar stjórnun og rekstur. Í dag er fjárreiðum skólans haldið aðskildum í reikningshaldi Slysavarnafélagsins Landsbjargar en talið er rétt að lögin geri ráð fyrir að Landsbjörg geti rekið skólann í sérstöku félagi svo unnt sé að aðskilja með skýrum hætti stjórnun skólans frá annarri og ótengdri starfsemi Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Slíkt fyrirkomulag mun ekki hafa áhrif á ábyrgð og skuldbindingar Slysavarnafélagsins Landsbjargar gagnvart ríkinu hvaða skólann varðar.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum um skólanefnd, 3. og 4. gr. laganna. Lagt er til að í stað þess að kveða á um að meginhlutverk skólanefndar sé að fjalla um málefni Slysavarnaskólans og uppbyggingu, einkum varðandi tækjakaup og búnað hans, framkvæmdir og áframhaldandi uppbyggingu, verði mælt fyrir um að meginhlutverk nefndarinnar sé að vera ráðgefandi um fagleg málefni skólans og uppbyggingu. Nefndin mun áfram hafa aðkomu að faglegum málefnum Slysavarnaskólans og uppbyggingu, en með þessari breytingu er staða nefndarinnar og hlutverk skýrt. Talið er nákvæmara að kveða á um að nefndin sé ráðgefandi um málefni skólans við uppbyggingu heldur en að hún fjalli um þessa þætti. Þá verður það óbreytt að nefndin gerir tillögur til stjórnar Slysavarnaskólans um námskeiðahald, námskrá og lengd námskeiða á vegum skólans.

Einnig er lagt til að Slysavarnafélagið Landsbjörg í stað skólanefndar ráði skólastjóra Slysavarnaskólans en að ráðningin verði að fenginni umsögn skólanefndar. Er talið rétt að félagið sjálft, sem ber fjárhagslegu skuldbindinguna og ábyrgðina á rekstri skólans, taki ákvörðun um ráðningu en ekki fulltrúar í skólanefnd. Verði breyting þessi að lögum mun skólanefnd áfram hafa aðkomu að ráðningunni með umsögn sinni.

Í þriðja lagi er lögð til breyting á 5. gr. sem fjallar um greiðslur til skólans. Í gildandi lagaákvæði segir að kostnaður við rekstur skólans skuli greiddur úr ríkissjóði. Slysavarnafélag Íslands skuli gera fjárhagsáætlun fyrir skólann og leggja fyrir ráðuneytið til staðfestingar. Þróun undanfarinna ára hefur verið á þann veg að ráðuneyti samgöngumála hefur gert þjónustusamning við Slysavarnafélagið Landsbjörgu um rekstur Slysavarnaskóla sjómanna. Er lögð til breyting sem endurspeglar þetta fyrirkomulag.

Loks eru í fjórða lagi lagðar til breytingar sem leiðrétta heiti félaga í lögunum þannig að í stað Slysavarnafélags Íslands komi Slysavarnafélagið Landsbjörg og í stað Farmanna- og fiskimannasambands Íslands komi Félag skipstjórnarmanna. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarp þetta hafi fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum þessa frumvarps og legg til að því verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og til 2. umr.