152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

sveitarstjórnarlög.

571. mál
[15:43]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til breytinga á sveitarstjórnarlögum sem hafa það meginmarkmið að skýra og einfalda þær reglur sem gilda um íbúakosningar á vegum sveitarfélaga og að auðvelda sveitarfélögum að halda slíkar kosningar með skilvirkum hætti. Með frumvarpinu er m.a. stefnt að því að ná fram markmiðum þingsályktunar nr. 21/150, um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023. Í stuttu máli má segja að með þingsályktuninni sé stefnt að tveimur markmiðum. Lýtur fyrra markmiðið að sjálfbærni sveitarfélaga og lýðræðislegri starfsemi þeirra og er svohljóðandi: „Sveitarfélög á Íslandi verði öflug og sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi.“ Seinna markmiðið lýtur að sjálfsstjórn sveitarfélaga og ábyrgð þeirra, m.a. við að tryggja sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu, og hljóðar svo:„Sjálfsstjórn og ábyrgð sveitarfélaga verði virt og að tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu.“

Aðgerðaáætlunin fyrir 2019–2023 sem Alþingi samþykkti felur í sér 11 aðgerðir þar sem fyrrgreind markmið voru höfð að leiðarljósi. Efni frumvarpsins tengist sérstaklega aðgerðum níu og tíu í aðgerðaáætluninni. Aðgerð níu snýr að lýðræðislegum vettvangi sveitarfélaga og hefur það að markmiði að bæta aðkomu almennings að ákvarðanatöku og stefnumótun á sveitarstjórnarstiginu. Aðgerð tíu snýr að rafrænni stjórnsýslu sveitarfélaga og hefur það að markmiði að bæta aðgengi almennings að þjónustu og stjórnsýslu sveitarfélaga, bæta samskipti og tryggja gott flæði upplýsinga.

Frumvarp þetta er því einn þáttur í því að uppfylla fyrrnefnd verkefnismarkmið þar sem tilgangur frumvarpsins er að festa betur í sessi þann valmöguleika fyrir sveitarfélög að eiga samráð við íbúa um stjórn sveitarfélagsins í gegnum íbúakosningu sem byggist á traustum grunni.

Segja má að frumvarpið snúi að þremur þáttum:

Í fyrsta lagi að skýra og einfalda þær reglur sem gilda um íbúakosningar á vegum sveitarfélaga og auðvelda sveitarfélögum að halda slíkar kosningar með skilvirkum hætti. Lagaákvæði um atkvæðagreiðslur íbúa um einstök málefni var fyrst að finna í sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011. Í X. kafla umræddra laga var að finna mikilvæg nýmæli um samráð sveitarstjórna við íbúa sveitarfélaganna. Að baki kaflanum bjó það sjónarmið að mikilvægt væri að við stjórn sveitarfélaga væri leitað eftir víðtækari samstöðu meðal íbúa um einstakar ákvarðanir. Markmið og tilgangur gildandi 107. gr. sveitarstjórnarlaga, sem fjallar um atkvæðagreiðslur um einstök málefni sveitarfélaga, var að setja leiðbeinandi reglur um slíkar atkvæðagreiðslur og stóðu vonir til þess að sveitarfélög myndu nýta sér þessa aðferð til að eiga samráð við íbúa sína í auknum mæli. Í ákvæðinu voru tilteknar nokkrar sérreglur sem gilda um slíka íbúakosningu en síðan sagði að um atkvæðagreiðsluna ættu að gilda meginreglur laga um kosningar til sveitarstjórna, nú kosningalaga, eftir því sem við ætti.

Í framkvæmd hefur ákvæðið ekki náð að uppfylla þau markmið sem því var ætlað að ná af tveimur ástæðum. Annars vegar hefur komið í ljós að ákvæðið er ekki nægilega skýrt um hvaða tilteknu meginreglur kosningalaga skuli eiga við um íbúakosningar sveitarfélaga og með hvaða hætti. Þannig hafa vaknað spurningar um hvort hægt sé að víkja frá tilteknum kröfum kosningalaga, t.d. um fjölda kjörstaða, opnunartíma, fyrirkomulag, atkvæðagreiðslu utan kjörfundar o.fl. Þá hefur enn meiri vafi skapast um þessi atriði eftir gildistöku nýrra kosningalaga um síðustu áramót. Hins vegar hefur komið í ljós að kröfur kosningalaga til framkvæmdar íbúakosninga hafa reynst óþarflega íþyngjandi og kostnaðarsamar, sérstaklega þegar horft er til þess að slíkar atkvæðagreiðslur eru almennt ekki bindandi. Sambærileg sjónarmið eiga einnig við um aðrar tegundir af íbúakosningum sem mælt er fyrir um í sveitarstjórnarlögum. Það eru kosningar fulltrúa í nefndir sem fara með afmörkuð málefni fyrir hluta sveitarfélags, svokallaðar hverfisnefndir eða heimastjórnir, sem fara fram á grundvelli 38. gr. sveitarstjórnarlaga, og sameiningarkosningar sveitarfélaga sem fara fram á grundvelli 119. gr. laganna. Brýnt er því að skýra reglur um íbúakosningar sem fara fram á vegum sveitarfélaga og jafnframt að gera framkvæmd þeirra einfaldari.

Sú leið sem farin er í frumvarpi þessu til að ná framangreindum markmiðum er að leggja til að íbúakosningar sveitarfélaga fari ekki með beinum hætti eftir kosningalögum heldur eftir reglum sem þau setja sér sjálf. Verður það því í höndum sveitarfélaga að ákveða framkvæmd og fyrirkomulag íbúakosninga sem fara fram á vegum þeirra. Til að tryggja að gætt sé að grundvallaratriðum lýðræðislegra kosninga og framkvæmd íbúakosninga og að niðurstöður þeirra njóti trausts meðal íbúa sveitarfélaganna er jafnframt lagt til að ráðuneytið setji reglugerð þar sem mælt verði fyrir um þau atriði sem fram þurfa að koma í reglum sveitarfélaga um íbúakosningar.

Í frumvarpinu er jafnframt lögð til sú áhugaverða breyting að sveitarfélögum verði heimilt að lækka kosningaaldur í 16 ár í tilteknum íbúakosningum. Kallað hefur verið eftir slíkri breytingu varðandi íbúakosningar enda geta slíkar kosningar varðað hagsmuni ungmenna með beinum hætti. Þá byggir breytingin m.a. á þeim sjónarmiðum að lækkun kosningaaldurs geti gefið ungmennum tækifæri til að taka virkan þátt í stjórnmálum í nærumhverfi sínu og þannig stuðlað að virkari þátttöku ungmenna síðar meir í stjórnmálum.

Í öðru lagi er lagt til í frumvarpinu að heimildir sveitarfélaga til að halda íbúakosningar með rafrænum hætti verði víkkaðar og ákvæði þess efnis verði lögfest án gildistíma. Upplýsingatæknin hefur leitt af sér ótal nýja möguleika til að efla og auka lýðræði. Með lögum nr. 28/2013 var bráðabirgðaákvæði bætt við sveitarstjórnarlög sem heimilar sveitarfélögum að halda íbúakosningar, sem fara fram á grundvelli 107. gr. sveitarstjórnarlaga, með rafrænum hætti. Um var að ræða tilraunaverkefni til fimm ára og var heimildin framlengd með lögum nr. 73/2018 til ársins 2023. Þrátt fyrir að fáar rafrænar íbúakosningar hafi farið fram á grundvelli heimildarinnar til þessa standa vonir til þess að með betri og aðgengilegri tæknilausnum muni sveitarfélögin nýta sér þennan valkost í mun ríkara mæli til að eiga samráð við íbúa sína.

Í frumvarpinu er lagt til að sveitarfélögum verði heimilt að halda íbúakosningar, hvort sem um er að ræða sameiningarkosningar, heimastjórnar- eða hverfisnefndarkosningar eða kosningar um einstök málefni, með rafrænum hætti. Jafnframt er lagt til að ráðherra setji reglugerð um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænna kosninga og gerð rafrænnar kjörskrár. Frumvarpsákvæðið er sambærilegt orðalagi í bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga sem fjallar um rafrænar kosningar og hefur verið í gildi síðan 2013.

Í þriðja lagi eru lagðar til smávægilegar breytingar á sameiningarferli sveitarfélaga. Ráðuneytinu hafa borist ábendingar um að lagfæra mætti tiltekin atriði laganna sem varða framkvæmd sameiningar sveitarfélaga, svo sem kröfur um kynningarfrest og fjölda umræðna í sveitarstjórn. Er komið til móts við þessar ábendingar í frumvarpinu.

Frú forseti. Ég hef nú farið yfir helstu nýmæli frumvarpsins. Ekki er tilefni til að greina frá öllum þeim breytingum sem felast í frumvarpinu en ítarlega er gerð grein fyrir þeim í almennri greinargerð sem því fylgir. Ég vil árétta að frumvarp þetta snýr m.a. að því að eyða allri óvissu um framkvæmd íbúakosninga sveitarfélaga og er því mikilvægt að það verði samþykkt sem fyrst, og horfi ég nú á formann hv. umhverfis- og samgöngunefndar.

Virðulegi forseti. Ég legg til að eftir 1. umr. verði málinu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.