152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022--2036.

563. mál
[17:02]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er með mikilli ánægju að ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036. Forsögu þeirrar tillögu sem hér er lögð fram má rekja til ársins 2015 þegar Alþingi samþykkti lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015, þar sem mikil áhersla er lögð á samráð og samhæfingu við aðrar áætlanir. Í júní 2018 samþykkti Alþingi einróma stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024, eða til 7 ára. Skömmu síðar voru samþykktar breytingar, með lögum nr. 53/2018, sem kveða á um að ráðherra skuli á a.m.k. þriggja ára fresti leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára. Markmið laganna um byggðaáætlun og sóknaráætlanir er að efla byggðaþróun og auka samráð milli ráðuneyta á sviði byggðamála innan hvers landshluta og milli stjórnsýslustiga og færa til sveitarstjórna aukna ábyrgð á sviði byggða- og samfélagsþróunar.

Byggðaáætlun skal samkvæmt lögunum lýsa stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Þar segir, með leyfi forseta:

„Byggðaáætlun skal hafa að meginmarkmiði að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstaka áherslu skal leggja á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.“

Byggðamálaráð, sem starfar í umboði ráðherra, leiðir vinnu við gerð byggðaáætlunar og hófst endurskoðun gildandi áætlunar með samráðsfundi í Hafnarfirði í júní 2020. Þátttakendur á þeim fundi voru fulltrúar frá öllum landshlutasamtökum sveitarfélaga, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, fulltrúar frá öllum ráðuneytum í gegnum stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál, auk þess sem nokkrir alþingismenn þekktust boðið. Verkið var síðan unnið af starfsfólki samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, síðar innviðaráðuneytis, og Byggðastofnunar. Samráð og samhæfing hafa verið leiðarljós við þá vinnu. Samráðið hefur m.a. birst í fjölda funda sem haldnir hafa verið, bæði í aðdraganda stöðumats, svokallaðrar grænbókar, og stefnudraga, svokallaðrar hvítbókar. Til dæmis var fundað minnst tvisvar með hverjum landshlutasamtökum sveitarfélaga og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Enn fremur voru haldnir fundir með alþingismönnum og stjórnendum allra ráðuneyta en auk þess var efnt til fjölda funda með sérfræðingum ráðuneytanna. Samhæfingin birtist m.a. í nánu samráði við ábyrgðaraðila annarra málaflokka ríkisins þar sem leitað var leiða til að tengja byggðaáætlun sem mest við aðrar opinberar stefnur og áætlanir. Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál fer með lykilhlutverk þegar kemur að samhæfingu áætlana á vegum ríkisins. Boðið var upp á opið samráð á vef Byggðastofnunar og bæði stöðumat, grænbók, og drög að stefnu, hvítbók, voru lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum island.is þar sem haghöfum og almenningi gafst kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og athugasemdum. Alls bárust 18 umsagnir um stöðumatið og 34 umsagnir um stefnudrögin. Umsagnirnar voru almennt jákvæðar og uppbyggilegar. Við sumum þeirra var unnt að bregðast með því að færa efni þeirra inn í hvítbók, þ.e. stefnuna, annars vegar og þingsályktunartillöguna hins vegar. Tekið verður mið eftir atvikum af öðrum umsögnum í vinnu við framkvæmd byggðaáætlunar. Það sem helst var gagnrýnt var að í drögum að aðgerðaáætlun í hvítbókinni var ekki gerð grein fyrir fjármögnun aðgerða. Í tillögu til þingsályktunar kemur hins vegar fram tillaga að fjárveitingu af byggðaáætlun.

Drög að tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036 voru kynnt og samþykkt í ríkisstjórn 4. júní 2021 og lögð fram á Alþingi í sama mánuði sem þskj. 1849, 872. mál en var ekki afgreidd. Sú þingsályktunartillaga sem hér er lögð fram hefur tekið breytingum með hliðsjón af nýjum ríkisstjórnarsáttmála og breytingum á skipan Stjórnarráðs Íslands. Breytingarnar eru unnar í nánu samráði við viðkomandi ráðuneyti og stofnanir auk Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þá hafa breytingarnar verið kynntar landshlutasamtökum sveitarfélaga.

Hæstv. forseti. Það er vert að koma hér á framfæri þakklæti til allra þeirra sem komið hafa að þessum undirbúningi og samráðsferlinu. Framlag þeirra er mikilvægt fyrir gildi og inntak áætlunarinnar. Eins vil ég lýsa sérstakri ánægju með það hversu margar efnisríkar og ítarlegar umsagnir bárust á samráðsgátt Stjórnarráðsins, bæði við grænbókarvinnuna sem og hvítbókarvinnuna. Í mínum huga staðfesta þær að miklar væntingar eru bundnar við að við náum árangri á þessu sviði. Byggðamál heyra stjórnarfarslega undir innviðaráðuneyti en snerta í eðli sínu flesta málaflokka ríkisins og varða þannig öll ráðuneyti. Áætlunin er mikilvægt tæki fyrir stjórnvöld á hverjum tíma til að hafa áhrif á framgang og móta stefnu í byggðamálum fyrir landið í heild sem og einstök svæði.

Íslensk byggðastefna og byggðaáætlun byggjast á lögbundnum meginmarkmiðum sem snúa að því að jafna aðstöðu og efla sjálfbæra byggðaþróun. Sérstaka áherslu skal leggja á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf, eins og nefnt var hér fyrr. Stjórnvöld hafa unnið að þessum markmiðum með því að beita ýmsum áætlunum öðrum en byggðaáætlun, svo sem á sviði samgangna, mennta-, heilbrigðis- og atvinnumála. Áhrif á byggðamál eru þannig mun víðtækari en byggðaáætlunin ein og sér. Lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta kveða því jafnframt á um að byggðaáætlun skuli lýsa samhæfingu byggðastefnu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera og samráði við ráðuneyti, sveitarfélög og landshlutasamtök þeirra.

Til að takast á við þær áskoranir sem blasa við á sviði byggðaþróunar er lagt til að unnið verði að fimm lykilviðfangsefnum, sem eru eftirfarandi:

1. Lýðfræðilegri þróun og grunnþjónustu.

2. Fjölbreyttu atvinnulífi.

3. Innviðum.

4. Umhverfis- og loftslagsmálum.

5. Alþjóðlegri samkeppnisstöðu og sjálfbærni byggða.

Efling sveitarstjórnarstigsins og jafnréttissjónarmið verði tengd við úrlausn þessara áskorana.

Ríkisstjórnin hefur mikinn metnað í byggðamálum. Stefnuyfirlýsing hennar ber það með sér og áform einstakra ráðherra, sem m.a. birtast í fjármálaáætlun til næstu ára. Við teljum mikil verðmæti felast í því að landið allt sé í blómlegri byggð og að íbúar hafi sem jafnastan aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum um land allt. Við viljum að fólk eigi raunverulegt val um hvar það býr og starfar. Við leggjum því áherslu á að styðja við frjótt umhverfi um allt land þannig að grónar atvinnugreinar geti dafnað og ný skapandi hugsun laðað fram ný tækifæri. Jafnframt viljum við tryggja að jafnræði ríki í aðgengi að heilbrigðis- og félagsþjónustu sem og menntunartækifærum og nýta til þess fjarþjónustu þar sem við á. Til að styðja við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu verði störf hjá ríkinu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega og sett verði markmið um hlutfall opinberra starfa á landsbyggðinni. Auk þess að tryggja samkeppnishæft umhverfi fyrir atvinnustarfsemi munum við styðja við starfsaðstöðu og klasasamstarf hins opinbera og einkaaðila á landsbyggðinni og beita hagrænum hvötum í byggðaþróun, m.a. í gegnum Menntasjóð námsmanna. Við viljum að Ísland verði í fararbroddi með nútímainnviði, framsækna þjónustu, verðmætasköpun, jöfn lífsgæði og öflug sveitarfélög sem geti annast staðbundin verkefni og veitt íbúum hagkvæma og góða þjónustu með markmið sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi. Grunnþjónusta verði sem mest veitt íbúum í nærsamfélaginu. Við viljum vinna með styrkleika einstakra svæða og gæta að samspili þéttbýlis og dreifbýlis í þeim tilgangi að byggja upp fjölbreytt sjálfbær byggðarlög. Við viljum efla stærstu þéttbýlissvæðin og styrkja samkeppnishæfni þeirra. Í því felst m.a. að móta stefnu sem skilgreini hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar og uppbyggingu og hlutverk Akureyrar sem svæðisborgar. Við ætlum að halda áfram að samþætta byggðamál við aðra málaflokka eftir því sem við á. Þá verði áhrif á þróun einstakra byggða og búsetu skoðuð og metin í allri stefnumörkun og áætlanagerð hins opinbera. Ég lít svo á að helstu viðfangsefni á sviði byggðamála næstu árin verði að takast á við fækkun íbúa á einstökum svæðum, einhæft atvinnulíf, tæknibreytingar og þróun og aðlögun er varðar einstakar atvinnugreinar. Þá þurfum við einnig að tryggja greiðar samgöngur og aðgengi að þjónustu, ekki hvað síst á svæðum sem standa höllum fæti í þessu samhengi. Þannig stuðlum við að blómlegum byggðum um allt land.

Hæstv. forseti. Byggðaáætlun er nú sett fram með skýrum markmiðum og mælikvörðum. Markmiðin eru þrenns konar: Í fyrsta lagi að jafna aðgengi að þjónustu. Það felur m.a. í sér að hún verði veitt í nærsamfélaginu eftir því sem unnt er eða stafrænt og aðgengi að miðlægri þjónustu verði jafnað, hvort sem er með nýtingu tæknilausna eða lágmörkun á kostnaði vegna þjónustusóknar. Í öðru lagi að jafna tækifæri til atvinnu. Það felur m.a. í sér að bæta innviði, svo sem fjarskipti, samgöngur og afhendingargetu og öryggi í raforkumálum. Enn fremur að stoðkerfi stuðli að nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi og tækifæri til starfa hjá hinu opinbera og einkaaðilum verið jöfnuð óháð búsetu. Í þriðja lagi að stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt. Það felur m.a. í sér styrkingu efnahags, félagslegra og umhverfislegra þátta, eflingu sveitarfélaga, bætt aðgengi að grunnþjónustu, fjölbreyttara atvinnulíf og blómlega starfsemi í menningarmálum og afþreyingu sem tekur mið af ólíkri stöðu og þörfum íbúa. Til að ná þessum markmiðum eru lagðar til margs konar áherslur sem leiða annaðhvort til beinna og skilgreindra aðgerða eða eru til samhæfingar og stuðnings við aðgerðir í öðrum opinberum áætlunum. Aðgerðirnar eru alls 43 og eiga öll ráðuneyti beina aðild að framkvæmd þeirra. Þannig er leitast við að tryggja samþættingu byggðaáætlunar við sem flest málefnasvið og áætlanir ríkisins. Aðgerðirnar varða einnig margvísleg viðfangsefni sveitarfélaga sem hafa mikil áhrif á það hvernig okkur tekst til að hrinda þessari metnaðarfullu byggðaáætlun í framkvæmd. Þá eru skilgreindir níu mælikvarðar sem stuðst verður við til að meta árangur og framgang áætlunarinnar. Almennt eru mælikvarðarnir settir fram eftir landshlutum en í aðalatriðum er einnig hægt að greina upplýsingar eftir sveitarfélögum og/eða byggðakjörnum. Meðal mælikvarða er hlutfall þeirra sem eru í innan við 30 km fjarlægð frá heilsugæslustöð, dagvöruverslun, leik-, grunn- og framhaldsskóla, hlutfall ríkisstarfa og framfærsluhlutfall. Staða þessara þátta verður metin við upphaf byggðaáætlunar og reglulega fylgst með hvernig þeir breytast á gildistíma.

Frú forseti. Vert er að þakka sveitarfélögum, landshlutasamtökum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir mikilvægt framlag við að móta þessa áætlun. Ég vil að endingu gera stuttlega grein fyrir því hvernig við hyggjumst tryggja samhæfingu byggðaáætlunar við aðrar stefnur og áætlanir. Samhæfing byggðaáætlunar við aðrar stefnur og áætlanir hefur verið leiðarljós í vinnu við endurskoðun byggðaáætlunar. Ávinningur af samhæfingu er fjölþættur og felur m.a. í sér möguleika á betri nýtingu fjármuna, auknu gegnsæi og samvinnu í ólíkum málaflokkum um sambærilegar eða sameiginlegar áherslur og aðgerðir. Með samhæfingu er unnt að hámarka árangur opinberra áætlana á öllum stigum stjórnsýslunnar og auka þannig jákvæð áhrif. Því er mikilvægt að sameina krafta og tryggja að allir hlutaðeigandi komi að úrlausn mála. Það er mikilvægt að náið samráð sé milli ráðuneyta, stofnana ríkisins, sveitarfélaga, atvinnulífs og borgarasamfélags við framkvæmd byggðastefnu. Meðal aðgerða sem horft verður til í því sambandi eru eftirfarandi: Reglulega fari fram umræða á vettvangi ríkisstjórnar, stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál verði efldur, þjónustukort sem sýni aðgengi landsmanna að þjónustu og mælaborði verði viðhaldið og aðgengilegt á vef Byggðastofnunar. Náið og gott samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök, regluleg skýrslugjöf til Alþingis, kerfisbundin miðlun upplýsinga um rannsóknir, fræðslu og alþjóðlegan samanburð. Ég legg áherslu á að við framkvæmd opinberra laga um opinber fjármál verði fjallað sérstaklega um byggðasjónarmið.

Virðulegi forseti. Ég hef nú rakið helstu útlínur að tillögu til þingsályktunar um byggðamál 2022–2036. Þar er mikið samráð að baki. Margir hafa lagt hönd á plóg. Þannig viljum við vinna og það mun skila árangri, ekki síst á sviði byggðamála. Að lokum legg ég til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og til síðari umræðu.