152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

börn á flótta.

[15:30]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið, þó að mér finnist spurningu minni engu að síður ekki almennilega hafa verið svarað um hvers vegna þessum fjármunum hefur ekki verið veitt í þetta áður. Við vitum það öll að það er eitt að lofa einhverju og ákveða að gera eitthvað, en ef því fylgja ekki peningar þá gerist það ekki.

Ég ætla hins vegar að vinda mér í mína seinni spurningu. Í viðtali í gær sagðist hæstv. ráðherra vilja bæta kerfið sem tekur á móti fólki á flótta og heyrðist mér hann staðfesta það í ræðu sinni hér áðan. Hins vegar mælti hæstv. dómsmálaráðherra í ríkisstjórn hæstv. barnamálaráðherra fyrir frumvarpi í fyrradag sem stefnir að því að skerða verulega réttindi fólks á flótta, minnka skilvirkni kerfisins, auka kostnað, bæði veraldlegan kostnað fyrir íslenskt ríki og sveitarfélög og mannlegan kostnað í formi þjáningar fólks á flótta, þar á meðal barna. Ætlar hæstv. ráðherra að styðja þetta mál?