Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

grunnskólar.

579. mál
[17:44]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér er verið að tala um að fresta samræmdum prófum, ef ég skil þetta rétt, alveg til ársloka ársins 2024 og því er haldið fram að frumvarpið muni hafa jákvæð áhrif á börn og skólasamfélagið í heild sinni. Nú er það svo að undanfarin mörg ár hefur verið rætt um samræmd próf, áhrif samræmdra prófa á nemendur, álag, samanburð á milli skóla, samanburð í röðum nemenda o.s.frv. Þarna eru sjónarmið uppi sem lúta að því að það sé einmitt jákvætt fyrir börnin að geta metið stöðu sína miðað við aðra nemendur á landinu, það sé jákvætt fyrir skóla að geta metið stöðu sína miðað við aðra skóla á landinu og að einhverju leyti séu samræmd könnunarpróf því góð, hafi góð áhrif á börn ef rétt er á málum haldið og ef niðurstöður þeirra eru teknar til athugunar til þess að undirbúa nemendur betur fyrir viðtökuskólann.

Ég vil því biðja hæstv. ráðherra um að útskýra þetta aðeins betur fyrir mér. Er hér verið að halda því fram að ef haldin væru samræmd könnunarpróf myndi það hafa neikvæð áhrif á nemendur og skólastarfið og af hverju eru þá prófin ekki bara afnumin algerlega?