Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

grunnskólar.

579. mál
[17:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og ég vona svo sannarlega að kraftur, þekking og fjármunir verði settir í það að hanna þokkalegt og gott umhverfi í kringum samræmd könnunarpróf eða kringum námsmatið yfir höfuð í skólum landsins sem verður einmitt til þess að áhrifin á nemendur verða jákvæð. Það sem ég held að hafi einmitt verið neikvætt og hafi valdið nemendum miklu hugarangri var að kastað var til höndum við framkvæmd samræmdra prófa. Ef ég man rétt sagði þáverandi forstöðumaður Menntamálastofnunar að hann hefði látið ráðuneyti menntamála vita með fleiri bréfum og athugasemdum að kerfið sem væri í kringum framkvæmd samræmdra prófa væri ekki nægilega gott. Við urðum áþreifanlega vör við það þegar allt klikkaði í samræmdu prófunum fyrir ekki svo löngu og það hafði sannarlega slæm áhrif á nemendur. Nemendur fengu þá tækifæri til að taka prófið aftur á öðrum tíma og það voru margir sem gerðu það, vegna þess að ef námsmat er almennilegt og fagmannlega unnið þá kemur það að gagni fyrir nemendur og ef skólar vinna úr námsmatinu þannig að það gagnist nemendunum í framhaldinu þá skiptir það bara verulegu máli fyrir framtíð nemendanna og gengi þeirra í viðtökuskólunum. Ég vona, frú forseti, að hér eigi að gera almennilegar breytingar (Forseti hringir.) og því fylgi fjármagn og fagþekking alla leið.