Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

um fundarstjórn.

[15:55]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst þetta áhugaverðar umræður, raunar töluvert áhugaverðari en spurt og svarað hér í óundirbúnum fyrirspurnum vegna þess að ráðherrarnir hafa eiginlega náð fullkomnun í því að koma fram með svarleysu og jafnvel nýta púltið hér og fyrirspurnir þingmanna til að fá útrás fyrir einstaka frústrasjón yfir óskyldum málum eins og þekkt er orðið. Þannig að ég óska eiginlega eftir því að forseti taki þetta mál upp á vettvangi þingflokksformanna, hvort hægt sé að gera eitthvað til að gera þessar fyrirspurnir, þessa fyrirspurnatíma, pólitískari þannig að þær sinni tilgangi sínum. Mögulega, ef við ráðum nú við að breyta þessu svo að vel megi vera, gæti farið svo að þingmenn þyrftu ekki að nota hinn ágæta lið, fundarstjórn forseta, jafn mikið í pólitíska umræðu ef við gætum einhvern veginn fengið ráðherrana aftur í það að nýta óundirbúnar fyrirspurnir til að svara pólitískum fyrirspurnum í stað þess að vera með almenn leiðindi.