Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

meðferð sakamála og fullnusta refsinga.

518. mál
[20:43]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir kynninguna á þessu mjög svo þarfa og góða frumvarpi. Þar er mjög mikla réttarbót að finna fyrir þolendur ofbeldis, réttarbót sem kallað hefur verið eftir árum saman. Ég verð að segja að það er risastór áfangi að fá þetta mál hingað inn í þingsal. Ég vil hrósa hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að hafa komið þessu hingað og fagna því mjög.

Mig langar að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra út í nokkur atriði er varða það hvort að brotaþoli fái að standa sjálfur að áfrýjun máls, þ.e. að hafa eitthvað um það að segja hvort máli verður áfrýjað, af því það er ákæruvaldið sem rekur málið áfram. Hvort að með þessu máli sé í rauninni verið að setja í lög að ákæruvaldið verði að hafa samráð við brotaþola varðandi áfrýjun máls og hvort ákæruvaldið þurfi þar að taka tillit til vilja brotaþola varðandi áfrýjun.

Ég spyr að gefnu tilefni vegna þess að það er of oft að mínu áliti sem ákæruvaldið hefur tekið ákvörðun um að áfrýja ekki máli þar sem hluti máls hefur leitt til sýknunar eða jafnvel sýknað alfarið og það hefur leitt til mjög mikils áfalls fyrir brotaþola þegar að stoppað er, að því er virðist, í miðju verki.