Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

meðferð sakamála og fullnusta refsinga.

518. mál
[20:49]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er kveðið á um möguleika brotaþola til að fá gjafsókn fyrir æðra dómstigi. Annars eru náttúrlega bara ákveðin lög um gjafsókn sem ber að horfa til. Varðandi þessa grundvallarspurningu um hvort brotaþoli geti haft áhrif á hvort málinu verði áfrýjað, haft áhrif á ákæruvaldið, þá er auðvitað ákveðin hlutleysisskylda eða hlutlægniskylda á ákæruvaldinu þar sem þarf að taka jafnt tillit til atriða sem horfa til sektar eða sýknu. Að því leyti til verður ákæruvaldið að taka þessa kröfu sjálfstætt. En varðandi einkaréttarkröfu brotaþola erum við að liðka hér mjög fyrir því að sú málsmeðferð verði auðveldari fyrir brotaþola, það er liðkað mjög fyrir því að leggja brotaþola lið í því að geta haldið áfram með málið á þeim grundvelli.