Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

landamæri.

536. mál
[21:19]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um landamæri, frumvarp sem endurspeglar útlendingastefnu þeirrar ríkisstjórnar sem hér situr við völd. Ég ætla rétt að byrja á því að vekja athygli á gagnrýni sem hefur komið frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofu á 17. gr. frumvarpsins sem lýtur að eftirliti á innri landamærum Schengen. Samtök ferðaþjónustunnar benda á að í frumvarpinu eru lagðar ákveðnar skyldur á flutningsaðila um að ganga úr skugga um að skráður farþegi sé sá sem hann segist vera, hvort sem það er á innri eða ytri landamærum Schengen, og benda á að framkvæmd við innritun og byrðingu farþega á innri landamærum Schengen við eðlilegt ástand fyrir heimsfaraldur megi ekki verða meiri íþyngjandi en það sem tíðkast hefur og hafa áhyggjur af því að orðalagið í 17. gr. sé með þeim hætti að sjálfvirknivæðing á innri landamærum Schengen verði að engu, en myndi þá kalla á frekari mannskap með tilheyrandi töfum og kostnaði. Þetta er eitthvað sem ég held að við hljótum að þurfa að huga að þegar málið kemur til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd. Þetta myndi þá hafa bein áhrif á alþjóðlegt samkeppnisumhverfi landsins, enda starfar íslensk ferðaþjónusta í alþjóðlegu umhverfi og allar reglur sem kalla á frekari mannskap kalla sjálfkrafa á aukinn kostnað.

Annars finn ég mig knúinn til að ræða aðeins málefni sem varða kannski með óbeinum hætti þetta frumvarp en með beinum hætti þá útlendingastefnu sem kristallast í þessu frumvarpi og það eru áform stjórnvalda um að flytja hátt í 300 umsækjendur um alþjóðlega vernd úr landi á næstu dögum. Hér erum við að tala um fólk sem hefur dvalið í lengri tíma á Íslandi, jafnvel fest rætur og eignast vini og tengslanet, eignast börn og þannig mætti lengi telja. Þetta er fólk sem þráir að búa og starfa á Íslandi, taka þátt í samfélaginu, en þetta fólk á að rífa upp með rótum og vísa á götuna í Grikklandi. Þar eru aðstæður flóttafólks ömurlegar, raunar svo slæmar að dómstólar í fleiri en einu Evrópuríki hafa staðfest að endursendingar á flóttafólki þangað brjóti í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans og það sem meira er, Mannréttindadómstóll Evrópu hefur dæmt Grikkland brotlegt við 3. gr. mannréttindasáttmálans vegna aðstæðna í móttökukerfi flóttafólks. Þannig að það er ekkert að ástæðulausu sem íslensk stjórnvöld hafa ekki sent flóttafólk á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar til Grikklands í sjö ár.

En nú er það svo að Rauði krossinn og fleiri mannréttindasamtök sem og samtök sem starfa í Grikklandi telja raunar að aðstæður fólks með viðurkennda stöðu flóttamanns séu jafnvel enn verri en staða þeirra sem íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að senda ekki til Grikklands vegna óboðlegra aðstæðna. Hér er verið að brjóta gegn jafnræði og mismuna fólki með ómálefnalegum hætti. Fólk sem er sent til Grikklands lendir ekki í yfirfullum flóttamannabúðum, eins og oft hefur verið haldið fram. Það hefur ekki einu sinni rétt til þess að setjast að í flóttamannabúðum, það hefur engan rétt til þess að fá aðstoð til að verða sér út um húsnæði. Sú aðstoð stendur afar fáum til boða, hún stendur fólki ekki til boða nema í afar takmarkaðan tíma eftir að verndin er veitt og fólkið sem hér er verið að senda til Grikklands er löngu runnið út á tíma til að nálgast slíka aðstoð. Flest flóttafólk missir réttinn til að nýta sér aðstoðina á meðan það bíður eftir að fá hana. Stór hluti af þessum um 270 manns sem á að endursenda hefur dvalið hér í meira en 12 mánuði og samkvæmt útlendingalögum á flóttafólk rétt á efnismeðferð eftir að hafa dvalið hér lengur en 12 mánuði. En hér nýtur fólk ekki þess réttar vegna þess að það er sakað um tafir, hefur neitað að undirgangast PCR-próf til að liðka fyrir endursendingum. Reyndar virðist vera allur gangur á því hvort fólk sem neitar að gangast undir PCR-próf sé sjálft talið hafa verið valdur að töfum. Í sumum tilfellum hefur fólk fengið efnismeðferð þrátt fyrir að hafa neitað að undirgangast PCR-próf. Þetta virðist öllu heldur velta svolítið á verklagi lögreglu í einstaka málum frekar en athöfnum fólks.

Nú liggur fyrir að höfðað hefur verið dómsmál vegna eins af þessum málum. Það verður flutt þann 13. september næstkomandi og ef málið vinnst þá er það auðvitað fordæmisgefandi fyrir aðra í sömu stöðu, þ.e. umsækjendur um alþjóðlega vernd sem hafa mátt sæta ásökunum um tafir. Ég verð að segja að það er býsna glannalegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að senda allt þetta fólk úr landi meðan niðurstöðu beðið. Þarna eru íslensk stjórnvöld að taka þá áhættu að framkvæma tugi ef ekki hundruð brottvísana sem síðar kann að koma í ljós að eru ekki lögmætar. Það væri þá ekki í fyrsta skipti. Það hefur gerst margoft að t.d. kærunefnd útlendingamála eða dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn réttindum flóttafólks, að fólki hafi verið neitað um efnismeðferð t.d. á ómálefnalegum forsendum. Þetta hefur gerst margoft en þá er oftast bara búið að senda fólkið burt og það er ekkert verið að sækja fólkið sérstaklega. Þetta er auðvitað ekki í samræmi við meðalhóf eða góða stjórnsýsluhætti. Hvað er til ráða? Ég held að við verðum að gera þá kröfu að stjórnvöld bregðist við og komi í veg fyrir þessar mestu fjöldabrottvísanir Íslandssögunnar að því er virðist. Dómsmálaráðherra gæti sett reglugerð eða leiðbeinandi tilmæli. Hann gæti skilgreint ástandið vegna heimsfaraldurs sem sérstakar aðstæður þannig að það verði heimilt að taka til efnismeðferðar mál þeirra sem hafa dvalið hérna í lengri tíma en eitt ár vegna ástandsins. Það væri ein leið. Önnur leið væri að hætta endursendingum til Grikklands rétt eins og var gert í Dyflinnarmálum. Það var gert 2015 og aftur árið 2020 þegar ákveðið var að senda fólk ekki til Grikklands vegna óvissunnar í heimsfaraldri. Ráðherra gæti líka haft forgöngu um að breyta lögum eða reglugerðum þannig að fólk með stöðu flóttamanns í Evrópu, fólk sem fengið hefur vernd annars staðar, fengi sambærileg réttindi til atvinnuþátttöku hér á landi og EES-borgarar. Það væri ein leið. Í öllu falli skora ég á ráðherra og ríkisstjórn að bregðast við og koma í veg fyrir þessar fjöldabrottvísanir og sýna mannúð.