Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Flugmenn Landhelgisgæslu Íslands hafa verið samningslausir í nær þrjú ár eða frá árslokum 2019. Félag íslenskra atvinnuflugmanna segir að svo virðist vera sem stefnan hjá fjármálaráðuneytinu sé að fara með flugmenn Landhelgisgæslunnar sömu leið og gerðardómur fór með flugvirkja Landhelgisgæslunnar. Það virðist sem svo að helsta ágreiningsefnið séu starfsaldurslistar flugmanna sem samninganefnd ríkisins telur ekki samræmast lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og tengir það gerðardómi sem felldi slíkan úrskurð í tilfelli flugvirkja Landhelgisgæslunnar. Samninganefnd FÍA, Félag íslenskra atvinnuflugmanna, telur að þarna sé um grundvallarmisskilning að ræða því starfsaldurslistar flugmanna byggja á öðrum forsendum en starfsaldurslistar annarra stétta. Starfsaldurslistar flugmanna byggi á forsendum flugöryggis og talið er að með afnámi þeirra sé flugöryggi hreinlega stefnt í hættu þar sem flugmenn Landhelgisgæslunnar þurfa oft að taka erfiðar ákvarðanir á erfiðum tímum og starfsaldurslistinn heldur utan um flugmanninn við erfiðar ákvarðanir.

Flug er öruggasti ferðamáti sem um getur en sá árangur byggir á þrotlausri öryggisvinnu. Félag íslenskra atvinnuflugmanna segir að starfsaldurslistar tryggi að flugmenn geti aflýst flugi þegar þeir telja að aðstæður ógna öryggi, geti afboðað sig í vinnu ef þeir eru veikir eða of þreyttir án ótta við að verða reknir eða refsað og eru óhræddir við að tilkynna um slys ef svo ber undir. Hagur flugrekstraraðila er einnig tryggður með þessu fyrirkomulagi því langtímasjónarmið eru alltaf farsælli í rekstri en áhættusamur skammtímagróði. Starfsaldurslistar flugmanna eru því mikilvægt öryggisatriði og jafnvel enn mikilvægara í tilfelli flugmanna Landhelgisgæslunnar sem starfa oft undir gríðarlegu álagi, standa í framlínu í björgunaraðgerðum þar sem mannslíf eru iðulega í húfi og fljúga loftförum við afar krefjandi aðstæður. Ég hvet hæstv. ráðherra fjármála og ráðherra dómsmála að hlusta á flugmenn Landhelgisgæslunnar.