Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[17:19]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Við höfum gagnrýnt hér í dag að í þessu frumvarpi sé ekki með neinum hætti komið beint til móts við ungt fólk, fyrstu kaupendur, m.a. tekjulágt fólk sem komst inn á fasteignamarkaðinn á tímum sögulega lágra vaxta og á tímum þegar stjórnvöld töluðu eins og við Íslendingar værum að sigla inn í varanlegt lágvaxtaumhverfi. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur spáð því að núna í júní verði mánaðarleg greiðslubyrði óverðtryggðra lána að lágmarki 49.700 kr. á hverjar 10 milljónir sem teknar eru að láni. Þá mun greiðslubyrðin hafa hækkað um þriðjung á einu ári síðan stýrivextirnir voru í lágmarki. Ef við tökum bara sem dæmi ungt tiltölulega tekjulágt par sem komst inn á fasteignamarkað í fyrra, tók 30 milljóna lán, þá ætti samkvæmt þessum forsendum greiðslubyrði heimilisins að aukast um 37.000 kr. á mánuði á þessum tíma. Þetta er sem sagt kostnaðaraukinn sem þetta fólk þarf að standa undir vegna hraðra breytinga á vaxtastigi, kostnaðarauki sem ekki er komið með neinum hætti til móts við í þessu frumvarpi. Segjum að þetta fólk sé t.d. í vinnu — ja, segjum að fólkið hafi misst vinnuna í millitíðinni, jafnvel þótt svo sé þá breytir þetta frumvarp engu fyrir þetta fólk. Segjum að fólkið eigi tvö börn. Þá er þetta jú að jafnaði — þessi barnabótaauki er náttúrlega eingreiðsla þannig að ef við dreifum henni yfir á mánuði þá eru þetta 5.714 kr. á mánuði samkvæmt minnisblaði sem fjármálaráðuneytið tók saman, þar sem tekin eru saman áhrifin og þau sett upp með raunhæfum dæmum. Þetta eru 5.714 kr. til að vega upp á móti kostnaðarhækkun upp á 37.000 kr. á mánuði. Það er margt mjög gott í þessu frumvarpi en það er óþolandi eftir allan þennan tíma að ríkisstjórnin hafi ekki getað gert betur en þetta og lagt fram frumvarp sem tekur raunverulega á vanda þeirra hópa sem verða hvað harðast úti vegna hækkandi verðbólgu og vaxta. Og enn og aftur hvet ég eindregið til þess að þingheimur sameinist um að láta grunnatvinnuleysisbætur fylgja hækkun almannatrygginga. Það er sjálfsagt, mannúðlegt og eðlilegt.