Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

minnisvarði um eldgosið á Heimaey.

376. mál
[19:47]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Fyrst og fremst langar mig að þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað og deilt með okkur minningum sínum og upplifunum af þessum merku viðburðum. Allt eru þetta ræður sem eiga heima á hátíðahöldunum þegar við hittumst í Eyjum á næsta ári.

Mig langar að segja það hér í lokin að ég heimsótti Vestmannaeyjar í sumar með börnunum mínum. Við fórum í Eldheimasafnið, sem er alveg sérstaklega glæsilegt, þar sem saga þessara atburða var rifjuð upp. Það er ekki alltaf sem börn festast inni á söfnum. Ég horfði á syni mína þrjá, á öllum aldri, ganga í gegnum allt safnið, hlusta á frásögnina, því að þetta er alveg einstaklega vel sett fram, og ganga út breyttir menn. Það er svo mikilvægt að við lærum af svona atburðum, bæði að við drögum lærdóm af því sem gerðist en rifjum líka upp þau gildi sem við viljum hafa að leiðarljósi þegar kemur að því að byggja upp að nýju. Það held ég að hafi skipt svo ótrúlega miklu máli í framsetningu á þessari sýningu. Ég vona svo sannarlega að þetta verkefni geti orðið til þess að við höldum áfram að draga lærdóm af því sem okkur hefur hent og nýtum það til góðra verka til framtíðar.

Ég þakka fyrir góðar móttökur og vona að þetta geti orðið okkur öllum til sóma, Vestmannaeyjabæ, Alþingi og ríkisstjórn.