Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

áfengislög.

596. mál
[22:04]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Við erum í áhugaverðri umræðu um þetta frumvarp dómsmálaráðherra um breytingu á áfengislögum, sölu á framleiðslustað. Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

,,Með frumvarpinu er lagt til að veitt verði undanþága frá einkaleyfi ÁTVR til smásölu áfengis hér á landi og brugghúsum gert kleift að selja áfengt öl í smásölu á framleiðslustað í því skyni að styðja við starfsemi minni áfengisframleiðanda og jafna samkeppnisstöðu þeirra við stærri framleiðendur.“

Það hefur örugglega ekki farið fram hjá neinum að Íslendingar eru fyrir lifandis löngu byrjaðir að brugga sjálfir til eigin neyslu. Ég man raunar að amma mín og afi gerðu það á tíunda áratugnum. Þá var bara bruggað. Ég er kannski að koma þeim í vandræði. En það var bruggað. Það var algengt að fólk væri að sulla heima hjá sér með þessa hluti. Þetta er náttúrlega áhugaverð „kemestría“ út af fyrir sig en ég fer kannski út í það aðeins seinna.

Við höfum séð mjög skemmtilega þróun; lítil handverksbrugghús eru byrjuð að framleiða bjór hérna og þessir aðilar markaðssetja vöruna á þann hátt sem laðar til sín ferðamenn í svokallaðar smakkheimsóknir. Þetta er, forseti, bæði nýsköpun í ferðaþjónustu, nýsköpun í matargerð og nýsköpun í vöruþróun. Áhugaverð hliðaráhrif af þessu eru til dæmis að þau fyrirtæki sem hafa sent inn umsagnir um þetta frumvarp fagna því, af því að þau geta selt vöru sína til viðskiptavina án milliliðs og í margnota umbúðum jafnvel sem er auðvitað frábært fyrir umhverfið. Þarna sjáum við skemmtilegan og óvæntan vinkil á þessu málefni, umhverfisvinkil sem ætti nú heldur betur að vera okkur þingmönnum hugleikinn. Þarna er líka notað íslenskt hráefni, góða vatnið okkar hreina og jurtir og blóm og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta er rosalega skemmtilegt og gefur mikla möguleika til þróunar í framtíðinni. Hvernig væri að sjá t.d. íslenskt víski — kannski er einhver byrjaður á því — 32 ára gamalt íslenskt viskí, 16 ára, 10 ára, allt þetta. Þetta er áhugavert.

Það er náttúrlega löngu tímabært að nútímavæða íslensk áfengislög. Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert margar tilraunir til þess að útvíkka áfengislögin. Það hefur gengið misilla hjá þeim. En þarna sjáum við einhvern vísi að þessu. Það er áhugavert hversu misilla það hefur gengið vegna þess að þeir hafi verið í ríkisstjórn í 100 ár. Nei, ég er nú að færa í stílinn, virðulegi forseti. En þetta er vonandi einhvers konar vísbending um það sem koma skal. Jafnvel ef horft er á rökin sem eru verðug og áhyggjurnar sem eru verðugar í umsögnunum um fíknivanda, heimilisofbeldi og allt þetta og samhengið þar á milli þá er, eins og hefur komið fram í máli annarra þingmanna, staðreyndin sú að það eru forvarnir sem virka fyrst og fremst best í því samhengi. Svo erum við líka að nútímavæða okkur í fíknivanda yfir höfuð. Áfallamiðuð nálgun á fíknivanda t.d. er að leysa úr læðingi alls konar sannleika sem við höfum ekki gert okkur grein fyrir áður, að þetta sé ekki bara það einfalt að fólk endilega ánetjist áfengi áfengisins vegna heldur geta oft verið og eru oft undirliggjandi ástæður þar fyrir sem snúa að geðheilbrigði einstaklinga. Jú, vissulega getur menning haft áhrif og „triggerar“ og allt það. Ég er ekki að gera lítið úr því. En geðheilbrigði, veikindi þar, geta svo sannarlega verið mikill áhættuþáttur í því að þróa með sér fíknivanda hvers konar og þar er auðvitað áfengi á meðal, áfengisvandi. Við erum að sjá það og vonandi erum við að sjá núna meiri skilning á geðheilbrigðisvanda yfir höfuð og nálgun á þetta. Það eru í mínum huga, virðulegi forseti, löt stjórnmál að vilja bara banna, banna, banna til að leysa hlutina, að nota bann sem patentlausn á hlutunum. Mér finnst það ákveðin leti út af fyrir sig. Við erum hugsandi verur. Ferdinand Jónsson geðlæknir segir: Vandamál heimsins eru grá og lausnirnar eru það líka. Þetta er ekki svart og hvítt.

Eins og komið hefur fram í máli annarra þingmanna í kvöld þá hefur áfengi fylgt mannkyni um árabil og virðist ekkert vera að fara, vera á leiðinni út. Ef maður horfir líka á það út frá vöruþjónustu, út frá nýsköpun, út frá landkynningarhugmyndum þá er þetta náttúrlega hin fullkomna vara fyrir okkar þjóð, sérstaklega hvað varðar ferðamenn. Þegar fólk er í fríi þá er það nú jafnvel líklegra til þess að fá sér í tána. Þetta hefur fylgt okkur og er ekkert að fara og Alþingi þarf að vanda sig við þetta. Ég er alveg sammála því. ÁTVR hefur sent inn 25 blaðsíðna umsögn með ýmsum flóknum reikningsdæmum og viðvaranir um hamlandi Evrópulöggjöf sem það telur frumvarpið ekki standast. Þar er EES-samningurinn reifaður vítt og breitt og loks EFTA-dómstóllinn. Í niðurlagi er svo einhvern veginn boðist til þess að þeir hafi þetta bara í einhverri sérstakri hillu í vínbúðunum sínum. En ég held að það sé ekki það sem samfélagið er að kalla eftir og nútíminn út af fyrir sig.

Eins og annar hv. þingmaður kom inn á þá er þetta oft hugsjónafólk sem er að vinna við þetta og þróa þessa vöru, fólk sem hefur jafnvel um árabil og áratugi verið að leika sér við þetta og þróa þetta og lagt í það peninga og tíma og orku og er núna komið með skemmtilega vöru sem bætist í flóruna og getur verið rós í hnappagat þessarar þjóðar.

Við sjáum líka nýja spennandi þróun sem er smá hliðarangi af þessu. Það er áfengislaus bjór og áfengislaust vín. Ég sá jafnvel áfengislaust gin í búð um daginn. Það er svolítið áhugavert að sjá hvernig þessar vörur eru markaðssettar. Þú sérð varla muninn á því hvort um sé að ræða áfengi eða ekki, bjór með áfengi eða bjór án áfengis, vín með eða án og það er áhugavert að sjá hvaða áhrif þetta hefur svo á menninguna. Þetta er auðvitað ekki alveg nýtilkomið. En það er nýtilkomið að þetta sé svona útbreitt, sýnilegt í búðum og meira, greinilega lagt í að varan líkist þeirri vöru sem hún er að koma í staðinn fyrir. Það verður örugglega rannsóknarefni fyrir fólk í framtíðinni í háskóla að sjá hvaða áhrif þetta hefur á áfengismenningu, jafnvel í tengslum við geðheilbrigði og alla þessa hluti.

Ég styð þetta frumvarp og fagna því að það sé komið í þingsal. Þetta er rökrétt skref Við getum fundið út úr þessu með EES-samninginn. Það eru, með leyfi forseta, afsakið, „rísorsar“ hérna á þingi sem hljóta að geta flett upp hlutunum og komist að einhverri góðri niðurstöðu þannig að við lendum ekki í EFTA-dómstólnum og allt fari á hliðina.

Ég óska þessu frumvarpi velfarnaðar í þinginu og minni á og ítreka að áfengisvandi, fíknivandi út af fyrir sig, getur verið og er oft geðheilbrigðisvandi. Og geðheilbrigðisvandi er heilbrigðisvandi eins og hver annar. Við þurfum að horfa á hann þannig og ekki tengja fram hjá eins og fólk vill stundum gera.