152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

skattlagning séreignarsparnaðar.

[15:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Nú er ég ekki svo lánsöm að hafa lesið grein góðvinar míns, Ólafs Ísleifssonar, þegar hún birtist þannig að ég verð bara að hlusta á endursögn hv. þingmanns á þessari grein. Ég heyri þó að hann nefnir sérstaklega séreignarsparnaðinn í þessu tilviki sem og þá staðreynd að honum má ráðstafa skattfrjálst í tiltekin verkefni en ekki í önnur verkefni og hvort það stangist þá á við jafnræðisreglu. Það er kannski erfitt að draga þá ályktun en ég vil þó nefna það sem kom fram í nýlegri álitsgerð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fyrirkomulag húsnæðisstuðnings, sem séreignarsparnaðurinn er auðvitað hluti af, þar sem bent er á að þetta þurfi að taka til skoðunar, þ.e. að geta ráðstafað séreignarsparnaði inn á húsnæðislán, þ.e. út frá því að meta þurfi hvort það sé besta ráðstöfun á húsnæðisstuðningi stjórnvalda að gera það með þessum hætti. Mér heyrist á endursögn hv. þingmanns að hann sé þá fremur að horfa í að fara ætti í almennar skattaafléttingar á öðrum þáttum séreignarsparnaðar fremur en að fara í hina áttina. Ég leyfi mér að segja það í ljósi þess að ég hef ekki lesið greinina að það sé alltaf full ástæða til þess að rýna í svona þætti þegar þeir hafa verið teknir upp með tímabundnum hætti, eins og gert var á sínum tíma, og taka þá til skoðunar, ekki síst út frá þeim ábendingum sem hafa birst um að það verði að endurskoða húsnæðisstuðninginn heildstætt þannig að hann nýtist best þar sem hans er mest þörf. Það held ég að sé kannski stóra verkefnið í þessu.

Hvað varðar síðan almenn sjónarmið hvað varðar skattlagningu er ég náttúrlega þeirrar skoðunar, og get bara notað tækifærið til að ítreka það, að réttlátt skattkerfi snýst um að þeir sem mest hafa leggi hlutfallslega meira til en hinir sem minnst hafa. Það finnst mér að eigi að vera hin almenna lína, hvort sem um er að ræða fjármagnstekjur eða launatekjur í þessum efnum.