Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

699. mál
[19:00]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið eða andsvarið. Ástæðan fyrir að ég nefni þetta er að í frumvarpinu er talað um geymslu í jörðu, það er talað um dælingu í jörð, þ.e. við erum að binda okkur við það í þessu frumvarpi að verið sé að taka koldíoxíð og setja það í jörð. Ef við hugsum t.d. um að setja það í þara eða ofan í sjóinn þá erum við ekki að setja það í jörð. Ég held að það sé hætta á því að við séum kannski einmitt að binda okkur of mikið við eina ákveðna aðferð heldur en víðari. Ef ég skil ferlið sem frumvarpið á eftir að fara í gegnum þá á þetta eftir að koma inn í umhverfisnefnd aftur og fá umsagnir og annað. Því langar mig til að hvetja hv. umhverfis- og samgöngunefnd, og ég veit að hv. þingmaður er formaður hennar, til að leita umsagna hjá aðilum sem eru að skoða aðra tækni og hjá ráðuneytinu og athuga hvort það sé kannski hægt að víkka þetta aðeins meira út til þess að tryggja það að við séum að halda dyrunum opnum fyrir allar tegundir nýsköpunar í þessum málum.