Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

699. mál
[19:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu. Ég held ég geti tekið undir alla vega öll þau markmið sem komu fram í þeirri ræðu og lýsi mig tilbúinn til að taka þátt með hv. þingmanni og þingheim í þessu. Ég vildi bara upplýsa hv. þingmann um að það er akkúrat það sem við erum að gera í þessu máli, þ.e. að þingið brást við, bæði stjórnvöld og ráðuneytið, og kom með mál út af Carbfix-aðferðinni til þingsins á síðasta þingi. Mögulega var kappið svo mikið, við vildum vera mest og best, af því að þetta er varanleg geymsla, að við fórum aðeins fram úr þeirri tilskipun sem íslensk stjórnvöld héldu að þau mættu ráða meiru um innleiðinguna á. Núna þurfum við aðeins að bakka til þess að það hægist ekki á Carbfix-verkefninu og því er hv. umhverfis- og samgöngunefnd, eða meiri hluti hennar, að bregðast við með því að flytja málið sjálf af því að það gæti tekið langan tíma að fara að setja allt málið í efnismeðferð aftur og fara í gegnum í gegnum ráðuneytið og það ferli sem slík mál þurfa að fara í gegnum. Þess í stað tókum við bara umræðuna með umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og fengum minnisblað, fengum ráðuneytið til okkar í nefndinni og fórum yfir þetta og sögðum: Við erum tilbúin í þetta. Þetta er orðalagsbreyting, ekki efnisbreyting.

En nýsköpunarverkefnið um að rækta kolefnisskóga í hafi er enn þá á tilraunastigi og samkvæmt mínum upplýsingum hafa ekki komið neinar beiðnir eða upplýsingar til stjórnvalda nákvæmlega um hvernig það er gert. Því myndi það tefja þetta mál of mikið að fara að bíða eftir einhverjum niðurstöðum þar til að bregðast við því hér.