Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

um fundarstjórn.

[13:35]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Það virðist vera orðið viðverandi vandamál hversu lengi ráðuneytin eru að svara fyrirspurnum þingmanna, sem er eitt og sér bara mjög alvarlegt. Það hlýtur að þykja þeim mun alvarlegra þegar það dregst svona svakalega á langinn að svara fyrirspurnum sem er mikil krafa á að fá svör við fljótlega, eins og við fyrirspurnum sem beint er til ráðuneyta vegna sölunnar á Íslandsbanka og snúa að því ferli sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að setja rannsókn málsins í, að verið sé að spyrja spurninga beint um það mál. Það hlýtur að liggja í augum uppi að þeim spurningum þarf að svara strax, sérstaklega í ljósi þess að við erum að fara að klára og fara í sumarfrí og erum að bíða eftir skýrslu og alls konar upplýsingum. Það gengur ekki að þetta dragist svona á langinn. Ég vona innilega að svör berist fljótlega og bið forseta um að aðstoða okkur þingið að fá þau frá ráðuneytinu því að þetta er mjög brýnt.