Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

almenn hegningarlög.

389. mál
[18:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það eru orð sem maður vísar oft í hvað þetta varðar: Fyrst fóru þeir á eftir sósíalistunum og ég sagði ekkert, svo fóru þeir á eftir verkalýðsforingjunum og ég sagði ekkert, svo fóru þeir og náðu í gyðingana og ég sagði ekkert og svo komu þeir eftir mér og þá var enginn eftir til þess að andmæla. Jú, einmitt, við eigum að setja lög um þetta. En það er alltaf einhver hluti fólks sem er hræddur, misnotar aðstæður sér til varnar og það er bara atriði sem við þurfum að vera vakandi fyrir. Það er ekki ástæða til þess að stíga ekki svona skref heldur þurfum við að vera mjög vel upplýst um af hverju við erum að taka svona skref og á sama tíma í hvert sinn sem er verið að nota þau, því að það að beita valdi er alvarlegur hlutur. Það er alvarlegt þegar við þurfum að beita valdi. Við erum með lýðræðið til að reyna alla vega að velja fólk sem misbeitir ekki valdi. Við erum með alls konar eftirlitsstofnanir og dómstóla sem eiga að verja okkur fyrir því þegar verið er að misbeita valdi, en það gengur upp og ofan, alla jafna tiltölulega vel en það er að sjálfsögðu ekki fullkomið. Það er því stöðug vinna að passa upp á þetta. Ekkert af þessu gengur sjálfkrafa fyrir sig. Það er ekki nóg bara að setja þessi lög og þá verði allt í himnalagi. Það er langt frá því nóg. Það þarf að fara og taka skrefin. Stjórnvöld þurfa að horfa á þau (Forseti hringir.) sem nota lögin og beita þeim og passa upp á að þeim sé rétt beitt, að það sé hlustað á það (Forseti hringir.) þegar svínshöfuð eru notuð en ekki endilega orð.