Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[23:05]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvörin og umræðuna. Það er eitt sem ég setti svolítið spurningarmerki við þegar ég fór að tékka á því hvernig þessu málum væri háttað t.d. í Noregi og Danmörku og það er að það kemur fram að við erum með þriðju útgáfuna hér, virðist vera, í þessu máli og skerum okkur því svolítið úr frá bæði Danmörku og Noregi. Ég set spurningarmerki við þetta vegna þess að ekki fyrir svo löngu síðan í sömu nefnd kom upp umræða um að hafa hlutina eins og á hinum Norðurlöndunum. Þá sagði ég einmitt: Er ekki allt í lagi að hafa þetta öðruvísi? Þá var það ekki í lagi en hér virðist það vera allt í lagi. Maður furðar sig á því hvernig sjónarmiðin eru. Ég er á þessu máli vegna þess að ég taldi þetta vera gott mál og ég taldi þetta vera þarft mál sem þyrfti að afgreiða og vil styðja öll góð mál sem ég tel að þurfi að komast í gegn, ég tala nú ekki um þegar málið varðar GRECO, sem er ríkjahópur gegn spillingu innan Evrópuráðsins. Þá vill maður nú reyna að bregðast við því og gera þetta almennilega. Ég vona bara að þetta gangi upp og ef ekki þá verðum við bara að taka afleiðingunum og passa okkur að endurskoða málin mun betur og kafa dýpra ofan í þau.