Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það var sérstakt fagnaðarefni fyrir ferðaþjónustuna á Norðurlandi þegar fyrsta þota Nice Air, Súlur, lenti á Akureyrarflugvelli á mánudaginn og mun félagið fljúga sitt jómfrúarflug til Kaupmannahafnar seinna í vikunni. Þá var ekki síður gott að heyra að félag flugfreyja hefur náð góðum samningum við flugfélagið fyrir bæði flugfreyjur og -þjóna. Þetta er algjörlega ný staða í ferðaþjónustu á Norðurlandi og fyrsti vísirinn að áframhaldandi uppbyggingu á Norðurlandi sem áfangastaðar í kjölfar heimsfaraldursins. Það er gríðarlega mikilvægt ef við viljum tryggja sjálfbæra ferðaþjónustu á Íslandi að við byggjum undir hana á heilsársgrundvelli, að hér sé fólk jafnt á ferð og flugi þegar dagarnir eru stuttir og snjór yfir öllu og líka þegar sólin skín næturlangt. Þá er sömuleiðis mikilvægt að stuðla að uppbyggingu um land allt. Alþjóðaflug inn á Akureyri er liður í því og mun stuðla að sanngjarnri dreifingu ferðamanna og tel ég næsta víst að þeim muni fjölga á áður fáfarnari stöðum. Þá er frekari dreifing ferðamanna liður í því að fjölga störfum þar sem þeirra er þörf en víða í fámennari sveitum landsins hefur skort á atvinnuuppbyggingu síðustu áratugi. Þá gefur það augaleið að þjónusta til handa ferðamönnum er aukin þjónusta við heimamenn og getur átt við allt frá lengri opnunartímum í verslunum til fjölbreyttari afþreyingar. Í þessu samhengi verð ég líka að segja að við verðum að sjá til þess t.d. að demantshringurinn sé fær stærstan hluta ársins enda stór partur af því að laða að ferðamenn.

Forseti. Ég fagna þessari fjárfestingu í ferðaþjónustu á landsbyggðinni og tel hana vera mikið happ fyrir land og þjóð. Þá tel ég innviði bæði á Norður- og Austurlandi ágæta með tilliti til fjölbreytni og þjónustu. Mikilvægt er samt sem áður að styðja við heilsársuppbyggingu ferðaþjónustunnar í kjördæminu og vil ég líka minna á að Egilsstaðaflugvöllur skiptir þar máli. Í kjördæminu er að finna nokkur af helstu skíðasvæðum landsins sem ég tel að draga muni erlenda ferðamenn að í enn meira mæli en áður. Þá er ótalin önnur afþreying, nálægð við náttúruna og afar fjölbreytt afþreying (Forseti hringir.) um allt Norður- og Austurland. Við horfum því galvösk til framtíðar enda hafa viðtökur (Forseti hringir.) hins íslenska félags verið framar vonum (Forseti hringir.) og það ríkir mikil bjartsýni fyrir komandi sumri hjá stjórnendum félagsins.