Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[16:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mikið alvörumál og ánægjulegt að Ísland skuli standa svona vel við bakið á nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum og þess vegna ætla ég að halda aftur af mér með að fara of mikið út í innanlandspólitíkina. En það er samt ekki hægt að líta fram hjá því að hér lýsir hæstv. utanríkisráðherra Íslands því yfir að það sé ánægjulegt að aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni, sérstaklega hæstv. forsætisráðherra, skuli leyfa sér að líta fram hjá eigin stefnu og fylgja annarri stefnu en vera samt enn þá fylgjandi sinni stefnu. Þetta er ekki mjög traustvekjandi, frú forseti, í afstöðu Íslands til þessa stóra máls, sem er NATO og aðild okkar og annarra þjóða, ekki hvað síst auðvitað Norðurlandaþjóðanna núna með inngöngu Finna og Svía í þetta bandalag.

En að því sögðu hef ég aðra spurningu fyrir hæstv. ráðherra. Eins og kom fram í máli ráðherrans er eindreginn stuðningur við þessa aðild, þessa viðbót við NATO, frá að því er virðist öllum þjóðum nema Tyrklandi. Og þá spyr ég hæstv. utanríkisráðherra: Myndi ráðherrann, ef þyrfti að velja þar á milli, frekar vilja fá Svíþjóð og Finnland inn í NATO eða halda Tyrklandi í NATO, ef valið stæði um það?