Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[16:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin og er bara ánægð með þau. Ég verð hins vegar að vona það að NATO-ríkin eða NATO hugsi sig um hvað það varðar hverjir setja í rauninni skilyrðin. Segjum að Rússarnir hefði tekið upp á því korteri fyrir umsókn Finna að fara inn í lítinn hluta í Finnlandi. Þá hefðu þeir gert Finnland, samkvæmt okkar eigin reglum, NATO-ríkja, í rauninni ekki bært til að fara inn í NATO á þeim grundvelli. Þannig að það er um að gera að ýta undir með Georgíu og síðar Moldóvu. Ég vil sérstaklega líka hrósa ráðherranum fyrir þann tón sem hún sendir Tyrkjum á þessum tíma. Mér finnst algerlega óviðeigandi hvernig Tyrkland hefur komið fram nákvæmlega í þessu umsóknarferli. Það kemur augljóslega fram að við erum ekkert í fyrsta sinn að tala um stækkun á NATO, það hefur verið gert nokkuð oft og ítrekað síðustu 20–25 árin. En aldrei hafa þeir verið beint að móast við eins og þeir gera núna. Þetta er mjög óviðeigandi og ég er fegin að ráðherrann heldur þessum málflutningi á lofti.

Síðan til viðbótar, það er kannski komið nóg en ég ætla bara að tæma kvóta minn til að hrósa ráðherra. Ég vil sérstaklega draga fram hvað það er mikilvægt að talað sé skýrt í þessu máli þegar kemur að innrás og grimmdarverkum Rússa í Úkraínu. Þess þá heldur er óþolandi að lesa um það í blöðum og skynja að það séu raddir, íhaldssamar, afturhaldssamar, úreltar raddir innan flokka sem eru að reyna að réttlæta gjörðir Rússa í Úkraínu, reyna að segja að þetta eigi ekki að vera svona. Við vitum alveg hvar þessar blaðagreinar eru og ég held að ráðherra viti alveg hvað ég er að meina. Þess vegna skiptir máli að forystufólk í ríkisstjórninni, eins og utanríkisráðherra, (Forseti hringir.) tali mjög skýrt gegn þessu ofbeldi sem Rússar og Pútín eru að láta framkvæma í Úkraínu og það sé talað skýrt alveg frá upphafi. (Forseti hringir.) Fyrir það vil ég þakka sérstaklega.