Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[16:24]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Sú umræða sem hér er í gangi í dag er að svo mörgu leyti merkileg, bæði í alþjóðlegum samanburði og ef horft er til þess norræna samstarfs sem við Íslendingar erum svo mjög virkir þátttakendur í. Ástæða umræðunnar er hins vegar til komin vegna atburða sem ekkert okkar óraði fyrir að myndu raungerast með þeim hætti sem við höfum nú séð gerast. Innrás Rússa í Úkraínu hefur gerbreytt landslagi í Evrópu og sér í lagi í Austur-Evrópu og vandséð hvernig sú staða eða sá ólgusjór á eftir að lygna á komandi árum. Væntingar sem höfðu staðið til þess að ógnin væri í rénum hafa svo sannarlega reynst rangar og stríð í Evrópu er staðreynd. Flest ef ekki öll ríki Evrópu huga nú að sínum vörnum og hefur fjármagn til öryggis- og varnarmála stóraukist hjá ríkjum Evrópu. Áhyggjur af þróun átaka á næstu vikum, mánuðum eða jafnvel árum eru þjóðum álfunnar hugleiknar og er ekki fyrirséð hvernig þeim átökum muni ljúka. Það eru raunverulegar áhyggjur af því hvort innrásarherinn muni láta staðar numið við landamæri Úkraínu eða halda áfram inn í nærliggjandi lönd. Það er ótti ríkjanna í Austur-Evrópu og hann kom vel fram á ársfundi NATO í Vilníus nú um síðustu helgi. Umsóknarbeiðni Svía og Finna inn í NATO er til komin vegna þessa og þeirrar óvissu um hvert átökin muni leiða og þeirrar nýju heimsmyndar í öryggis- og varnarmálum sem teiknast hefur upp á síðustu mánuðum.

Norður-Atlantshafssamningurinn var undirritaður 4. apríl 1949 þar sem 12 sjálfstæð ríki rituðu undir stofnsáttmála samtakanna og ákváðu að gera með sér varnarbandalag þar sem grunnstefið var að árás á eitt ríki jafngilti árás á þau öll. Árið 1949 var heimurinn allur, og Evrópa sérstaklega, að ná sér upp úr þeim hildarleik sem síðari heimsstyrjöldin var og kalda stríðið milli austurs og vesturs var að teiknast upp. Það var ekki að ástæðulausu að þessar 12 þjóðir fundu sig knúnar til að tryggja varnir sínar og mynda með sér bandalag til að tryggja betur öryggi íbúa sinna og landamæra. Sporin hræddu.

Ísland hafði öðlast fullveldi 1918 með sambandssamningnum 1. desember það ár. Samkvæmt samningnum hafði Ísland rétt til að segja upp sambandinu við Danmörk að 25 árum liðnum. Skrefið var stigið að fullu 1944 og lýðveldi Íslands varð að veruleika. Það var því ung þjóð sem hafði þá framsýni að setjast við samningaborðið og taka ákvörðun um að verða ein af stofnaðilum hins nýja öryggis- og varnarbandalags á Norður-Atlantshafi og þar með tryggja betur varnir þjóðarinnar gegn þeim framtíðarógnum sem að þjóðinni myndu steðja í komandi framtíð. Árás ríkis á fullvalda og sjálfstæða þjóð í Evrópu sem hefur gert það eitt af sér að vilja vera sjálfstæð er óásættanleg hegðun og henni ber að hafna. Hún verður að hafa afleiðingar og fyrir hana þarf að refsa. Úkraína er nú að verja sjálfstæði sitt, sama sjálfstæði og við Íslendingar höfum barist fyrir árum og jafnvel árhundruðum saman og náðum að sigra 1944. Í dag eru aðildarríkin 30 og það er mín von að þeim muni fjölga í 32 með inngöngu Svíþjóðar og Finnlands.

Virðulegur forseti. Við ræðum hér um inngöngu Svía og Finna í öryggis- og varnarbandalag, NATO. Ég fagna því skrefi og held að það muni, ef þetta verður samþykkt, styrkja varnir þeirra ríkja sem og varnir okkar Íslendinga. Eins styrkir það stöðu ríkja á norðanverðu Atlantshafi sem og Eystrasaltsríkjanna sem skiptir okkur verulegu máli. Sú hugmyndafræði að sitja hjá og taka ekki þátt, hlutleysi, er því miður ekki lengur á borðinu að mati Finna og Svía og sú breytta heimsmynd og sú ógn sem ég hef farið yfir hér á undan verður til þess að ný staða er komin upp hjá þessum tveimur löndum og Evrópu allri. Það hefur ekki verið auðveld ákvörðun að taka en hún var afdráttarlaus. Það er mat þessara ríkja að hagsmunum þeirra sé betur fyrir komið innan bandalags en utan. Umræða hefur verið hér frá inngöngu Íslands inn í bandalagið hvort hagsmunum Íslands sé betur borgið innan eða utan samtakanna. Að mínu mati er sú umræða er komin á endastöð. Herlaus þjóð þarf að geta varið sig á viðsjárverðum tímum.

Virðulegur forseti. Ég fagna inngöngu Svíþjóðar og Finnlands í öryggis- og varnarbandalag NATO og tel það vera heillaskref fyrir NATO og aðildarþjóðir bandalagsins og þar með talið Ísland.