Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[16:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Innrás Rússa í Úkraínu og væntanleg aðild Finnlands og Svíþjóðar að NATO sem af því leiðir er fyrst og fremst áminning um það að mannkynssögunni er ekki lokið. Einhverjir virtust líta svo á eftir lok kalda stríðsins að þar með hefði a.m.k. Vesturlönd komist á hinn óhjákvæmilega áfangastað þróunarinnar og þyrftu ekkert sérstaklega að passa upp á það. En nú erum við minnt á það að lýðræði og borgaraleg gildi þarf að verja og það getur þurft að gera það með hernaðarbandalagi. Það er ekkert langt síðan farið var að tala um NATO eins og það væri á einhvern hátt gamaldags, tilheyrði horfnum heimi. En nú erum við rækilega minnt á að sú er ekki raunin. Ég skal viðurkenna það, frú forseti, að ég get vel skilið þá afstöðu sem til að mynda flokkar eins og Vinstrihreyfingin – grænt framboð höfðu til NATO-aðildar Íslands. Ég var ekki endilega sammála þeim en ég gat skilið afstöðuna. Afi minn og fleiri ættingjar mótmæltu hér á Austurvelli árið 1949 og fengu á sig táragas þegar ákveðið var að Ísland gengi í NATO. Það var í beinu framhaldi af því að Ísland hafði ekki fengið að vera stofnaðili að aðili að Sameinuðu þjóðunum af því að ríkið taldi prinsippið um hlutleysi mikilvægara en að fallast á það skilyrði að lýsa yfir stríði á hendur Þýskalandi. En aðstæður höfðu breyst þá og þær hafa svo sannarlega breyst núna. Það er því óhjákvæmilegt, frú forseti, að mínu mati að við þingmenn allir endurmetum — við þurfum auðvitað að gera það reglulega en sérstaklega núna — fyrri afstöðu rétt eins og þingmenn og ráðherrar í Svíþjóð og Finnlandi hafa gert núna.

Ég nefndi það áðan í andsvari að við í utanríkismálanefnd hefðum orðið þess heiðurs aðnjótandi að hitta utanríkismálanefndir þjóðþinga þessara landa og ráðherra og þar hefðu þingmenn sem höfðu verið afdráttarlausir í því alla sína tíð að vera andsnúnir aðild Finnlands að Atlantshafsbandalaginu lýst því yfir að þetta hefði breyst, með breyttum heimi, með breyttri stöðu. Ég held að íslensk stjórnvöld, ríkisstjórnin öll og stjórnarflokkarnir og þingið þurfi að hugleiða það líka hvort staðan hafi ekki breyst með þeim hætti að við þurfum að sýna eindrægni, ríkisstjórn Íslands þurfi að sýna eindrægni í stuðningi við þetta varnarbandalag sem verður að segjast að hefur reynst okkur Íslendingum vel um áratugaskeið. Við þurfum, þrátt fyrir að aðhyllast friðarstefnu, eins og við eflaust gerum flestir íslenskir þingmenn, að viðurkenna að til að verja friðinn þá þurfi varnir. Því hvet ég hæstv. ráðherra og ríkisstjórnina alla til að endurmeta í sameiningu, endurmeta sameiginlega stöðuna sem við stöndum frammi fyrir og sýna eindrægni, þá eindrægni sem svo mikil áhersla var lögð á í Svíþjóð og í Finnlandi og raunar í Eistlandi líka. Það var áður sagt að enginn gæti orðið forsætisráðherra á Íslandi verandi andstæðingur NATO-aðildar. Það breyttist með þessari ríkisstjórn sem skilgreindi sig sem ríkisstjórn breiðrar skírskotunar frekari stjórnmála, frekar en stefnu. En allt í einu upplifum við það að sagan heldur áfram og stjórnmálin halda áfram og ríkisstjórnin þarf að taka afstöðu. Að minnsta kosti held ég að það liggi alveg ljóst fyrir að ef forsætisráðherra í Svíþjóð eða Finnlandi akkúrat núna væri andsnúinn aðild landsins að NATO þá myndi sá forsætisráðherra víkja fremur en að skírskota í það að einhverjir aðrir hefðu ákveðið hver stefna landsins ætti að verða.

En við fögnum auðvitað aðild þessara vinaþjóða að NATO og ég held að við getum flest eða öll verið sammála um það að Svíþjóð og Finnland séu góð viðbót við NATO og styrki bandalagið, Finnar auðvitað með grjótharðan her eins og dæmin sanna og Svíar miklir vopnaframleiðendur þó að mér hafi nú stundum þótt það vera einum of án þess að ég fari nánar út í það. En það er þá alla vega betra að hafa þá innan bandalagsins heldur en utan og að styrkur þessara ríkja bæti við styrk Atlantshafsbandalagsins.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi atriði í ræðunni hér á undan mér sem vöktu athygli mína, annars vegar vegna þess að ég var algerlega sammála hv. þingmanni og hins vegar vegna þess að ég var algjörlega ósammála. Í fyrsta lagi var það rétt sem hv. þingmaður sagði að rússnesk stjórnvöld hefðu nýtt sér veikleika, eða það sem þeir a.m.k. skynjuðu sem veikleika Vesturlanda, til að færa út kvíarnar, ganga á lagið sem þeir töldu vera raunhæft og meira að segja forseti landsins tók sér tungutak kommúnista hér á árum áður og fór að tala um Vesturlönd sem fasista eða nasista. Berlínarmúrinn var nefndur andfasíski veggurinn í Berlín. En hann tók sér líka tungutak nýaldar vinstri manna á Vesturlöndum með því að saka andstæðinga sína um slíkar kenndir. En það er hins vegar að mínu mati algerlega fráleitt að tengja áhuga Finnlands og Svíþjóðar á aðild að varnarbandalaginu NATO við hugsanlega, og vonandi ekki hugsanlega en umrædda, aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hvenær hefur Evrópusambandið staðið sig í varnarmálum? Aldrei. Aldrei. Bandaríkin hafa þurft að koma til bjargar. NATO hefur þurft að koma til bjargar. Evrópusambandið hefur því miður ekkert með varnarhagsmuni að gera enda eru þessar þjóðir, Finnland og Svíþjóð, báðar aðilar að Evrópusambandinu en telja það augljóslega einskis vert í samhengi við varnarmál. Evrópusambandið hefur því miður auk þess ekki sýnt að það hafi skynbragð á aðstæður eins og nú þegar þjóðir eins og Pólverjar og Ungverjar hafa verið að gera sitt besta til að taka á móti gríðarlegum straumi flóttamanna. Hver eru viðbrögð Evrópusambandsins? Að hjálpa þeim með fjárstuðningi? Nei, að ítreka sektir á þessu lönd fyrir að fylgja ekki nógu vel Evrópustefnunni. Svoleiðis að þetta eru tveir aðskildir hlutir og ég myndi frekar túlka það sem svo að umsókn Svía og Finna um aðild að NATO, verandi Evrópusambandsþjóðir, sé einmitt áminning um að Evrópusambandið dugi ekki til þess að það sé hægt að treysta á það í varnarmálum eða að ýmsu öðru leyti.

Við fögnum umsókn Finna og Svía um aðild að Atlantshafsbandalaginu og ég vona að við náum hér á þinginu að afgreiða þetta eins hratt og kostur er. Við í utanríkismálanefnd fengum að heyra það frá þingmönnum lengst frá vinstri til hægri í þessum löndum að nú væru bara aðstæður þannig að menn mætu það að best væri að ganga í NATO og gera það eins hratt og kostur væri. Því hvet ég hæstv. ráðherra til að halda áfram og ráðuneytið að ýta þessum málum hér áfram og ég hvet Alþingi Íslendinga til að gera slíkt hið sama og flýta meðferð þessa máls og samþykkja aðild Finna og Svía að Atlantshafsbandalaginu hið allra fyrsta.