Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[17:08]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu. Eins og hefur komið fram gerðumst við Íslendingar stofnaðilar að NATO árið 1949 og höfum verið virkir þátttakendur í varnarbandalaginu þrátt fyrir að vera eina aðildarríkið sem ekki heldur úti hefðbundnum her. Framlag okkar til varnarmála tekur mið af þessari staðreynd en vægi okkar hefur verið verulegt og áherslur okkar fengið hljómgrunn. Varnarbandalagið hefur þannig verið grundvöllur öryggisstefnu landsins ásamt varnarsamningnum við Bandaríkin frá 1951. Skýrt er kveðið á um samstarfið í þjóðaröryggisstefnu landsins sem samþykkt var á Alþingi 2016 og ríkisstjórn Íslands starfar eftir. Stefna NATO um að halda dyrum sínum opnum fyrir nýjum aðildarríkjum hefur verið bandalaginu til góðs. Sérstakt varnarsamstarf ríkja hefur einnig aukist og má þar helst nefna norræna varnarsamstarfið NORDEFCO þar sem Norðurlöndin hafa nána samvinnu á sviði öryggis- og varnarmála. Finnland, Svíþjóð og Noregur skrifuðu undir þríhliða samkomulag um varnir og öryggismál 2020 og Svíar og Finnar hafa enn aukið sitt samstarf í ljósi árásarstríðsins í Úkraínu á síðustu mánuðum. Þjóðirnar tvær hafa nú ákveðið að taka sögulegt skref í varnarmálum landanna með umsókn um aðild að stærsta og öflugasta varnarbandalagi veraldar. Finnland hefur á að skipa öflugum her en hingað til talið farsælla að standa utan NATO. Finnland á 1.340 km löng landamæri að Rússlandi og því sætir breytt afstaða þeirra til inngöngu tíðindum. Finnland hefur þó um langt skeið átt náið samstarf við NATO á sviði varnarmála. Svíþjóð hefur talið vænlegra að halda hlutleysi. Má þar nefna stöðu þjóðarinnar í seinni heimsstyrjöldinni. Því má einnig segja að innganga Svía í NATO, verði hún að veruleika, sé veruleg stefnubreyting af þeirra hálfu.

Ástæða breyttrar nálgunar ríkjanna í öryggis- og varnarmálum er augljós en þann 24. febrúar hófu Rússar allsherjarinnrás sína inn í nágrannaríki sitt Úkraínu, fullvalda ríki sem nú berst fyrir tilverurétti sínum. Innrásin hefur sett öryggisjafnvægi í Evrópu í hættu og kallar á samstöðu lýðræðisríkja, ekki bara í Evrópu heldur um allan heim. Sjálfsögð réttindi ríkja til sjálfsákvörðunartöku og virðing fyrir landamærum og mannréttindum virðist fyrir borð borin, ef marka má stríðið í Úkraínu. Viðbrögðin við stríðinu eru skiljanleg og mikilvæg. Gleymum því ekki að Evrópa hefur verið helsta sögusvið tveggja heimsstyrjalda. Öryggi í álfunni verður að grundvallast á sameiginlegum hagsmunum um frið.

Virðulegi forseti. Óþarfi er að fara í löngu máli yfir samvinnu og söguleg tengsl við frændur okkar Finna og Svía. Grunngildi okkar og hugsjónir eru þær sömu. Nú þegar þjóðirnar hafa sótt um að gerast bandalagsríki NATO með formlegum hætti í kjölfar samráðs og þinglegrar meðferðar munu viðræður og frágangur aðildarsamninga taka við. Það stendur þó upp á öll NATO-ríkin að samþykkja slíka inngöngu. Það liggur fyrir Alþingi að heimila ríkisstjórn Íslands að staðfesta viðbótarsamning við Norður-Atlantshafssamninginn. Hér er um að ræða eitt veigamesta mál sem komið hefur til kasta Alþingis er varðar öryggis- og varnarmál um langt skeið. Það er mér mikill heiður að mæla fyrir inngöngu vinaþjóða okkar í Atlantshafsbandalagið. Ég vil bjóða Finna og Svía velkomna um borð. Megi okkur farnast í sameiningu vel að halda á lofti merkjum lýðræðis, mannréttinda og friðar í Evrópu og um heim allan.